Stytta þarf málsmeðferðartíma hjá yfirskattanefnd og koma í veg fyrir endurtekna rannsókn meiriháttar skattamála samkvæmt nýrri skýrslu nefndar um athugun á stjórnsýslu skattamála. Skýrslan er birt á vefsíðu fjármálaráðuneytisins.

Jafnframt segir í niðurstöðum skýrslunnar að ganga þurfi úr skugga um að ákvæði skattalaga um jafnhliða beitingu álags og refsingar vegna brota á lögunum samræmist banni við tvöföldu refsinæmi og að skýra verði mörk milli starfssviða eftirlitsskrifstofu ríkisskattstjóra og embættis skattrannsóknarstjóra. Að auki þurfi að huga því að fjármála- og efnahagsráðuneytið sinni vel eftirlits-, stjórnunar- og stefnumótunarhlutverkum sínum.

Fjármálaráðherra skipaði nefndina 20. september 2013 og lauk hún störfum 20. desember. Formaður var Ragnhildur Helgadóttir, prófessor, en auk hennar sátu Garðar G. Gíslason hdl. og Guðrún Þorleifsdóttir lögfræðingur í nefndinni.