Íslenska olíuleitarfyrirtækið Eykon Energy ehf. hefur náð samningum við kínverska ríkisolíuleitarfyrirtækið China National Offshore Oil Corporation (CNOOC) um samstarf við olíuleit á Drekasvæðinu.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins mun Orkustofnun á næstu dögum úthluta Eykon og CNOOC rannsóknarleyfi á Drekasvæðinu.

CNOOC er eitt af stærri olíuleitarfyrirtækjum heims en félagið er þegar þátttakandi í ýmsum olíuleitarverkefnum í Norðursjó. Óhætt er að segja að CNOOC sé stærsti aðilinn sem komið hefur að olíuleitarverkefni á Drekasvæðinu hingað til. Viðræður á milli Eykon og CNOOC hafa staðið yfir í rúmt ár en samkvæmt heimildum blaðsins mun Eykon eignast 20% hlut í leitarverkefninu á móti 80% hlut CNOOC.

Eins og áður hefur komið fram hefur Orkustofnun þegar veitt félögunum Faroe Petroleum Norge  og Íslensku Kolvetni annars vegar og Valiant Petroleum  og Kolvetni hins vegar sérleyfi fyrir rannsóknir og vinnslu kolvetnis (olíu og gass) á Drekasvæðinu. Jafnframt hafa norsk stjórnvöld ákveðið að norska ríkisolíufélagið Petoro verði þátttakandi í báðum leyfunum, að fjórðungs hlut í hvoru leyfi fyrir sig eins og samningur Íslands og Noregs frá árinu 1981 heimilar þeim. Fari svo að olía finnist á svæðinu munu ofarngreindir aðilar greiða um helming af veltu og hagnaði til íslenskra ríkisins í skatt.

Kolvetnismenn í tveimur leyfum

Fyrrnefndum leyfum var úthlutað í desember sl. Eykon hafði þá jafnframt sótt um samskonar leyfi en fékk frest fram á vor til að afla sér samstarfsaðila sem að mati Orkustofnunar hefði næga sérþekkingu,  reynslu og bolmagn til að annast þá starfsemi sem í leyfisveitingunni felst.

Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir og eigandi Ursus, er einn af stærstu eigendum Eykons og jafnframt stjórnarformaður félagsins. Ásamt honum eiga þeir Gunnlaugur Jónsson og Terje  Hagevang stærstan hlut í félaginu.

Gunnlaugur er jafnframt í forsvari fyrir Kolvetni ehf. sem þegar hefur tryggt sér rannsóknarleyfi í samstarfi við Valiant Petroleum , þar sem Terje Hagavang er framkvæmdastjóri. Jón Helgi Guðmundsson, oft kenndur við Byko, er jafnframt hluthafi í Kolvetni.

Ekki náðist í Heiðar Má við vinnslu fréttarinnar.