*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 7. október 2014 18:05

Styttist í sjósetningu nýs skips HB Granda

Tvö ný uppsjávarveiðiskip eru í smíðum í Tyrklandi en kostnaður við smíðina nemur 1,9 milljarði króna.

Ritstjórn

Smíði Venusar NS 150, sem er annað af tveimur uppsjávarveiðiskipum sem HB Grandi er með í smíðum í Celiktrans skipasmíðastöðinni í Tyrklandi, miðar vel og stefnt er að því að skipið verði sjósett um miðjan næsta mánuð. Þetta kemur fram á vefsíðu HB Granda.

Uppsjávarskipin tvö kosta HB Granda um 1,9 milljarða króna. Að sögn Þórarins Sigurbjörnssonar, sem er eftirlitsmaður með smíðinni, var brú og skorsteinshúsi komið fyrir á skipinu í síðustu viku.

,,Aðalvél, gír, rafall, ljósavélar, hliðarskrúfur ásamt öllum tækjum í vélarúmi og búnaði fyrir sjókælingu í RSW tönkum, eru komin á sinn stað og nú er verið að ganga frá röralögnum og rafmagnsköplum. Ekki er búið að ganga frá skrúfubúnaði eða stýri og eins á eftir að setja upp frammastrið,“ segir Þórarinn á vefsíðu HB Granda, en hann segist vonast til þess að hægt verði að sjósetja skipið eftir rúman mánuð eða svo.

Hitt uppsjávarveiðiskipið, Víkingur AK, er enn í blokkarsmíði og segir Þórarinn að samsetning á stálblokkunum sé ekki hafin.
Auk kaupa á tveimur nýjum uppsjávarveiðiskipum hefur HB Grandi samið um kaup á þremur nýjum ísfisktogurum. Kaupverðið er um 6,8 milljarðar króna.

Áætlað er að fyrsta verði afhentur í maí árið 2016, það næsta síðla árs 2016 og það þriðja vorið 2017. Nýju skipin munu leysa af hólmi þrjá togara, sem nú eru í rekstri, eða Ásbjörn RE, Ottó N. Þorláksson RE og Sturlaug H. Böðvarsson AK.