Stjórn ungra framsóknarmanna (SUF) lýsir yfir miklum áhyggjum af þróun viðskiptalífsins á Íslandi í nýrri ályktun.

Þar segir að eftir hrun fjármálakerfisins virðist viðskiptalífið vera að þróast til enn verri vegar, þar sem óskynsamar lánveitingar með annarlegum og óljósum hvötum eru í fréttum vikulega, eins og það er orðað í ályktun SUF.

„Endurskipulagning fyrirtækja virðist ekki vera framkvæmd með tilliti til hagsmuna þjóðarinnar. Vafasamir eigendur og slæm lán virðast því miður ekki heyra sögunni til,“ segir í ályktuninni.

„Upplýst og gegnsæ afskrifta- og söluferli virðast vera vandfundin. Í skjóli ríkisstjórnar, meðvitað eða ómeðvitað, er upphaf frekari efnahagsvandamála að mótast.“

Þá segir jafnframt:

„Gömlu viðskiptavinnubrögðin þurfa að heyra sögunni til og endurvekja þarf eðlileg viðmið, þar sem verðugir viðskiptamenn fá lán, en ekki þeir sem hafa með viðskiptafléttum komið sér hjá endurgreiðslum lána. Sýndarspil í útlánum og lánafléttum milli félaga og lánastofnanna þarf að rannsaka, sækja þá til saka sem brotið hafa af sér og dæma í þessum málum í anda löggjafarinnar og viðmiða þróaðri réttarkerfa.

Stjórn ungra framsóknarmanna hvetur ríkisstjórnina til að vakna til lífsins og snúa sér að brýnustu málunum í stað innri átaka og valdabaráttu í ríkisstjórninni sem landsmenn verða vitni að á degi hverjum.“