Sumarstarfsmenn í fjárfestingabönkum í Lundúnum munu fá greiddar rúmar 200 þúsund krónur á viku fyrir 10 vikna störf í bönkunum í sumar. Er þetta um það bil 15 prósenta hækkun frá síðasta sumri.

Samkvæmt frétt Business Insider eru þessar hækkanir sagðar hafa tekið gildi hjá risabönkum á borð við Goldman Sachs, Bank of America Merrill Lynch, Credit Suisse og Barclays.

Launahækkanirnar eru í takt við þær hækkanir sem greinendur (byrjunarstarfsmenn) hafa verið að fá hjá fjárfestingabönkum. Í raun eru laun sumarstarfsmannanna svipuð og laun greinendanna, sem þó fá bónusa sem sumarstarfsmenn fá ekki.

Sumarstarfsmennirnir þurfa þó heldur betur að vinna fyrir þessum launum. Viðskiptablaðið greindi frá því á dögunum að Goldman Sachs hafi þurft að banna starfsmönnum sínum að sofa á skrifstofunni og takmarkast nú vinnudagur þeirra við „einungis“ 17 klukkustundir.