Svandís Svavarsdóttir, formaður stýrihóps borgarráðs um málefni Orkuveitu Reykjavíkur, segir líklegt að niðurstöður hópsins liggi fyrir seinni hluta janúarmánaðar. Hún segir í samtali við blaðamann Viðskiptablaðsins að sé OR skilgreind á sviði einkaréttar þurfi að endurskoða þá skilgreiningu. “Fyrirtæki sem hafa ekkert annað hlutverk en að þjóna almenningi eiga auðvitað að lúta lögum um opinbera stjórnsýslu,” segir hún.

Í svari Reykjavíkurborgar við bréfi umboðsmanns Alþingis frá 30.október síðastliðnum segir að þegar OR hafi verið breytt í sameignarfyrirtæki árið 2001 hafi orðið grundvallarbreytingar á umhverfi OR. Fyrirtækið starfi því á sviði einkaréttar. OR og Reykjavík Energy Invest, dótturfélag þess, lúti því sem slík ekki reglum opinbers réttar. Upplýsingalög ná þar með ekki til slíkra félaga.

Borgarráð samþykkti að skipa stýrihópinn um málefni OR hinn 18. október síðastliðinn. Var honum meðal annars falið að gera ítarlega úttekt á aðdraganda og kyningu stjórnar- og eigendafundar OR hinn 3. október og þeim ákvörðunum sem þar voru teknar varðandi sameiningu REI og Geysis Green Energy. Þá var hópnum falið að koma með tillögur um framtíðarstefnumótun OR.

Stýrihópurinn var skipaður einum fulltrúa frá hverjum flokki í borgarstjórn. Formaður hópsins er eins og áður kom fram Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna.