Aðþrengdir Bretar leita á náðir Dominos í lánsfjárkreppunni. Methagnaður var á rekstri flatbökukeðjunnar á síðasta fjórðungi. Samkvæmt vefsíðu The Daily Telegraph jókst hagnaður fyrir skatta um 32,7% fyrir ársfjórðunginn sem andaði þann 29. júní síðastliðin. Um er að ræða hagnað upp á tæpa 11 milljónir punda og jókst salan um 19,5% en alls seldi keðjan flatbökur fyrir 170 milljónir punda.

Blaðið hefur eftir Chris Moore, framkvæmdastjóra keðjunnar, að efnahagsástandið á Bretlandi sé með þeim hætti að neytendur fari út að borða í minna mæli en áður. Um leið og að neytendur ákveði að halda sig heima myndast viðskiptatækifæri fyrir Dominos.

Dominos rekur 526 staði á Bretlandi og Írlandi og voru 25 nýir staðir opnaðir á síðasta fjórðungi. Keðjan hyggst opna fimmtíu nýja staði á þessu rekstrarári. Athygli vekur að mikil aukning er á því að svangir Bretar panti sér Dominos-flatbökur gegnum Netið. Ríflega fimmtungs sneið af öllum pöntunum eru gegnum Netið.