Guðmundur Þ. Þórhallsson, framkvæmdastjóori Lífeyrissjóðs verslunarmanna, segir að ekkert sé til í því að réttindi fólks í lífeyrissjóðum séu byggð á sandi og að ekki sé hægt að treysta þeim til framtíðar.

Þetta segir Guðmundur í grein sem birt er á heimasíðu lífeyrissjóðsins. Greinin er skrifuð „í tilefni af misvísandi getgátum um forsendur lífeyrisréttinda“. Hann segir meðal annars að þrátt fyrir efnahagsáföll standi sjóðurinn sterkur og njóti góðs af þeim ráðstöfunum sem gripið hefur verið til að undanförnu. „Lífeyrisþegum, núverandi og í framtíðinni, er tryggt svo vel sem mögulegt er að þeir fái greiddan lífeyri í samræmi við iðgjöld sín og framangreindar reglur. Innviðir sjóðsins eru sterkir og markvisst hefur verið unnið að því að ná aftur fyrri styrk.“

Greinina í held má lesa hér að neðan:

Í tilefni af misvísandi getgátum um forsendur lífeyrisréttinda

Meðal annars hefur flogið fyrir í umræðu í fjölmiðlum að réttindi fólks í lífeyrissjóðum séu byggð á sandi og lítt á þau að treysta til framtíðar.

Til að svara tilhæfulausum ásökunum sem þessum þarf einkum að horfa til tveggja þátta, eigna- og skuldastöðu lífeyrissjóðs og uppbyggingu lífeyrisréttinda sjóðfélaga.  Eigna- og skuldastaða lífeyrissjóðs í nútíð og framtíð er metin í tryggingafræðilegri úttekt og sjóðfélagar ávinna sér lífeyrisréttindi samkvæmt gildandi réttindatöflum.

Hvað eru sjóðfélagar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna að fá fyrir sín iðgjöld og hver er staða sjóðsins?  Rétt er að taka fram að hér verður fjallað um samtryggingardeild sjóðsins en ekki séreignardeild.

Endurgjald fyrir iðgjöld til Lífeyrissjóðs verzlunarmanna

Sjóðfélagar ávinna sér með greiðslu iðgjalda til sjóðsins rétt til ævilangs lífeyris , ellilífeyris,  auk víðtækrar tryggingaverndar yfir starfsævina í formi réttar til örorkulífeyris sé um skerta starfsorku að ræða. Tryggingarverndin nær einnig til maka sjóðfélaga í formi makalífeyrisréttar ef viðkomandi fellur frá og til barna sjóðfélagans í formi barnalífeyris.  Fjárhæð ævilangs lífeyris og hversu rík tryggingarverndin er til afkomenda ræðst einkum af fjárhæð iðgjaldsins, ávöxtun eigna, lífaldri sjóðfélaga og örorkutíðni auk þess  hve lengi hefur verið greitt til sjóðsins.

Taka má sem dæmi sjóðfélaga sem greiðir 4% af sínum launum auk 8% mótframlags frá launagreiðanda. Hann ávinnur sér að jafnaði árlega um 1,55% af launum fyrir hvert ár sem iðgjöld eru greidd til lífeyrissjóðsins.  Þannig ávinnur 25 ára einstaklingur sér 2,61% af árslaunum  en 55 ára einstaklingur  1,13%.  Ástæðan liggur í því að ávinnsla réttinda er háð aldri, þar sem iðgjöld yngri sjóðfélaga ávaxtast lengur en þeirra sem eldri eru.    Lífeyrisréttindi sjóðfélaga eftir 42 ára starfsævi, frá 25 ára til 67 ára, er um 64% af verðtryggðum meðallaunum yfir starfsævina. Þessar tölur byggja á  gildandi réttindatöflum.  Margir kjósa jafnframt að greiða  framlag í séreignarsparnað, og fá jafnramt mótframlag vinnuveitenda, til að draga úr áhrifum þeirrar tekjulækkunar sem margir standa frammi fyrir við starfslok.

Réttindaávinnsla sjóðfélaga ákvarðast af réttindatöflu sem er hluti af samþykktum sjóðsins og eru reiknaðar af tryggingastærðfræðingi.  Þau framtíðarlífeyrisréttindi sem fram koma í réttindatöflum eiga að tryggja að lífeyrissjóðurinn sé ekki að veita umframréttindi miðað við inngreiðslur.  Þetta er eitt af grundvallaratriðum í uppbyggingu þeirra lífeyrissjóða sem byggja réttindaávinnslu sjóðfélaga á sjóðmyndun. Ætlunin er að tryggja að hver kynslóð standi því sem næst undir sínum lífeyri. Þá er rétt að benda á að réttindi í lífeyrissjóði eru samtrygging sjóðfélaga og réttindaávinnsla er óháð heilsu eða fjölskyldustöðu viðkomandi sjóðfélaga.

Jafnvægi í eignum og skuldum

Víkjum nú að eigna- og skuldastöðu sjóðsins.  Við mat á tryggingafræðilegri stöðu hans er tekið tillit til núverandi eigna og framtíðariðgjalda þeirra sjóðfélaga sem eru í sjóðnum. Þessir tveir liðir mynda heildareignir á móti áföllnum- og framtíðarskuldbindingum sem mynda heildarskuldir.  Þar sem eignir og skuldir í framtíðinni falla ekki til á sama tíma þarf að núvirða þessar stærðir m.v. ákveðna ávöxtunarkröfu.  Ávöxtunarkrafa sem tryggingastærðfræðingar notast við, sbr. ákvæði reglugerðar þar um, er 3,5% hjá lífeyrissjóðum sem ekki hafa bakábyrgð launagreiðenda.  Viðmið við  3,5% ávöxtunarkröfu á sér áralanga sögu og var á sínum tíma m.a. horft til vaxta á ríkistryggðum skuldabréfum og langtímahagvaxtar.    Niðurstaða í tryggingafræðilegu uppgjöri er jafnan sett fram  í hlutfalli af heildarskuldbindingum, sjá fimm ára yfirlit um stöðu lífeyrissjóðsins.

Ár              2009         2008         2007           2006         2005

Staða      -10,8%        -7,2%         4,7%           7,9%         6,1%

Á þessu fimm ára tímabili sveiflast staðan frá því að vera +6,1% til -10,8%. Áætluð tryggingarfræðileg staða sjóðsins eftir lækkun réttinda á sl. ári var áætluð um - 4 %. Staða í árslok 2010 liggur ekki fyrir.

Í lögum um lífeyrissjóði nr. 129/1997, er kveðið á um að fari tryggingafræðileg staða lífeyrissjóðs umfram +/- 10%  eða +/- 5% samfellt fimm ár í röð beri að lagfæra stöðu sjóðsins með því að lækka eða hækka lífeyrisréttindi.  Ákvæði laganna á að tryggja að lífeyrissjóðurinn sé hverju sinni að greiða út lífeyri til lífeyrisþega og lofa ávinnslu lífeyrisréttinda til greiðandi sjóðfélaga sem næst raunverulegri getu sjóðsins til lengri tíma litið.  Með þessu er verið að laga réttindi að stöðu sjóðsins og tryggja það að færa ekki fjármuni milli kynslóða, lífeyrisþega og greiðandi sjóðfélaga, enda byggist fyrirkomulag samtryggingardeildar í lífeyrissjóði á sátt milli kynslóða.

Áfram öflugur lífeyrissjóður

Þrátt fyrir efnahagsáföll stendur sjóðurinn sterkur og nýtur góðs af þeim ráðstöfunum sem gripið hefur verið til að undanförnu.  Lífeyrisþegum, núverandi og í framtíðinni, er tryggt svo vel sem mögulegt er að þeir fái greiddan lífeyri í samræmi við iðgjöld sín og framangreindar reglur. Innviðir sjóðsins eru sterkir og markvisst hefur verið unnið að því að ná aftur fyrri styrk.

Guðmundur Þ. Þórhallsson
framkvæmdastjóri