Fréttamaðurinn Svavar Halldórsson var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í meiðyrðamáli Jón Ásgeirs Jóhannesson gegn honum. Jón Ásgeir stefndi Svavari vegna fréttar hans um að Fons félag Pálma Haraldssonar, hafi vorið 2007 lánað þrjá milljarða króna til huldufélagsins Pace Associates, sem skráð var í Panama.

Landsbankinn hafði stofnað félagið þegar hann var kominn út fyrir heimildir til að lána beint til fasteignasjóðs á Indlandi. Baugur, Hannes Smárason og Kevin Stanford voru hluthafar í sjóðnum og hafi féð á endanum runnið í vasa þeirra Pálma, Jóns Ásgeirs og Hannesar Smárasonar.

Lán Fons var veitt Pace Associates í gegnum Landsbankann í Lúxemborg.

Fyrsta frétt Svavars um málið var send út í fréttum RÚV vorið 2010 og fóru þeir Pálmi og Jón Ásgeir báðir í kjölfarið í mál við Svavar vegna þess.

Fréttastofa Vísis hefur upp úr dóminum að Jón Ásgeir hafi ekki skilið fréttina á annan hátt en að þar sé hann sakaður um  auðgunarbrot og ummæli í þá átt væru ærumeiðandi. Af þeirri ástæðu hafi hann stefnt Svavari vegna fréttarinnar. Héraðsdómur hafi ekki fallist á þessi rök Jóns. Í niðurstöðu dómsins komi fram að skoða verði fréttina í heild sinni en ekki út frá einstökum ummælum. Jafnframt beri að líta til þess jarðvegs sem ummælin spruttu úr og til nauðsynlegrar umræðu í þjóðfélaginu um orsakir og afleiðingar bankahrunsins og jafnframt hafa í huga að einhverrar ónákvæmni geti gætt þegar fjallað er um flóknar lánveitingar og viðskiptafléttur.