Actavis hefur fengið samþykki bandarísku Matvæla og lyfjastofnunarinnar (FDA) fyrir skráningu á svefnlyfinu Zolpidem Tartrate á Bandaríkjamarkað. Lyfið verður markaðssett í Bandaríkjunum í samvinnu við Carlsbad Technology, Inc., og hefst dreifing lyfsins nú þegar segir í frétt félagsins.


Zolpidem Tartrate töflur, frumlyf samheitalyfsins Ambien® (Stilnoct®) frá lyfjafyrirtækinu Sanofi Aventis, verður selt í 5 mg og 10 mg töflum. Sala Zolpidem Tartrate taflna í Bandaríkjunum nam um 2,2 milljörðum bandaríkjadala (142 milljörðum króna) á árinu 2006, samkvæmt tölum IMS Health data. Búist er við að lyfið verði ágæt viðbót við lyfjaúrval félagsins í Bandaríkjunum en Actavis er í hópi fjölmargra félaga sem fengið hafa markaðleyfi fyrir lyfið.

Actavis gerir ráð fyrir að heildartekjur samstæðunnar á árinu 2007 nemi um 1,6 milljörðum evra, og að um þriðjungur þeirra komi frá Bandaríkjunum. Actavis í Bandaríkjunum lagði inn 38 skráningar (ANDA filings) til þarlendra yfirvalda á síðasta ári og gerir ráð fyrir að leggja inn 40-45 slíkar skráningar á árinu 2007. Zolpidem er fimmta samheitalyfið sem Actavis setur á markað á árinu í Bandaríkjunum en alls er áætlað að sett verði á markað 18-20 ný lyf á árinu 2007. Starfsemi fyrirtækisins í Bandaríkjunum er í New Jersey, Maryland, North Carolina, og Florida.