Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, tengist tveimur aflandsfélögum í Panama og á Tortóla. Hún segir að félögin hafi verið stofnuð í tengslum við fasteignaverkefni í Panama, en að hrunið hafi gert út af við þessi áform. Greint var frá þessu í Kastljósi.

Sveinbjörg segir að skattalegt hagræði hefði verið af félögunum ef verkefnin hefðu myndað einhverjar tekjur. „Er þá skattahagræði fólgið í að gera þetta svona, ef það hefðu komið peningar út úr þessu? Já það hefði verið það,“ hefur RÚV eftir Sveinbjörgu.

Félögin sem um ræðir heita 7CallInvest og Ice 1 corp. Hið fyrrnefnda var skráð á Tortóla í nóvember 2007, en hið síðarnefnda í desember 2007. Síðarnefnda félagið er í eigu íslensks hlutafélags, P10 ehf. Það var stofnað af Sveinbjörgu ásamt fleirum. Sveinbjörg var skráður stjórnarformaður félagsins í nýjasta ársreikningi þess.

Greint var frá tengslum tveggja annarra borgarfulltrúa við aflandsfélög í Kastljósi. Það eru þau Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Júlíus Vífill Ingvarsson.