Lýsi skuldari, með neikvætt eigið fé og engar tekjur, því yfir að hann sé borgunarmaður kröfu, eftir að honum hefur verið birt áskorun um að greiða eða lýsa yfir því að hann geti greitt, eru þá skilyrði uppfyllt til að taka hann til gjaldþrotaskipta? Hafa ársreikningar, sem ekki hafa verið sendir Skattinum, sönnunargildi? Og hvað varð um peningana sem DataCell ehf. (DC) fékk frá Valitor? Þetta er meðal þess sem var undir í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir viku þegar Reykvískir lögmenn slf., lögmannsstofa Sveins Andra Sveinssonar, krafðist þess að bú DC yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

Í júlí 2019 fékk lokst botn í skaðabótamál DC og Sunshine Press Production ehf. (SPP) gegn Valitor en málið hefur yfirleitt verið kallað WikiLeaks-málið. Snerist það um hvort Valitor bæri að greiða aðilunum skaðabætur, og þá hve háar, fyrir að hafa lokað greiðslugátt til félaganna tveggja að kröfu Visa Europe. Héraðsdómur hafði kveðið upp dóm sinn í apríl 2019 en málinu var áfrýjað til Landsréttar. Áður en það fór fyrir dóminn var hins vegar gerð dómsátt sem var samhljóða dómsorði. Alls greiddi Valitor 1.200 milljónir króna í bætur, auk dráttarvaxta frá dómsuppsögu, sem skiptist þannig að DC fékk 5% en SPP 95%. Var sú skipting í samræmi við samstarfssamning aðila í tengslum við opnun greiðslugáttarinnar.

Það urðu hins vegar ekki lyktir málsins en ágreiningur hefur orðið um skiptingu bótafjárhæðarinnar. Þegar lagt var af stað í málið var samið um að dæmd bótafjárhæð myndi skiptast til helminga milli DC og SPP. DC tæki á sig að fjármagna málið og í tilraun til að stilla kostnaði í hóf á fyrri stigum var samið um að lögmaður félaganna, Sveinn Andri Sveinsson, fengi árangurstengda þóknun af rekstri málsins, alls tíu prósent af dæmdum bótum. SPP hefur greitt Sveini Andra samkvæmt samningnum, DC ekki.

Ofan á það bætist síðan að eiganda DC, Svisslendingnum Andreas Fink, leist illa á háa reikninga frá lögmanninum á fyrri stigum og afturkallaði umboð hans til fyrir sitt leyti, þótt DC og SPP hafi samið um að ákvarðanir um slíkt skyldu teknar í sameiningu. Krafðist Valitor meðal annars niðurfellingar málsins, hvað DC varðar, sökum útivistar en ekki var fallist á það. Það varð því úr að fjársterkir aðilar tóku að sér fjármögnun málsins gegn því að fá bita af kökunni þegar dómur féll.

Enn er unnið að úrlausn þeirra mála allra og er gjaldþrotaskiptakrafa Sveins Andra liður í því. Sú krafa var höfð uppi nær samstundis eftir að botn fékk í kyrrsetningarmál DC gegn SPP og aðilum sem komu að fjármögnun málsins en þar var krafist kyrrsetningar á 540 milljónum króna. Landsréttur taldi lagaskilyrði ekki uppfyllt til að gerðin næði fram að ganga. Annað mál milli aðila er síðan til meðferðar héraðsdóms en hefur legið í salti í kjölfar þess að dómari sem var með málið fór á eftirlaun.

Skýrslutaka með semingi

Við upphaf aðalmeðferðarinnar ræddu lögmenn og dómari málsins, Ástráður Haraldsson, um það hvort réttarfarið leyfði að tekin yrði vitnaskýrsla í upphafi. Slíkt er óvanalegt í tengslum við gjaldþrotaskiptakröfur en samkomulag varð um að skýrslutakan gæti farið fram. Jóhann Fannar Guðjónsson, lögmaður DC, féllst þó á þetta með semingi.

Skýrsla var tekin af Ólafi Vigni Sigurvinssyni, stofnanda DC, en hann sagði síðar skilið við félagið, að eigin sögn þar sem Andreas Fink hefði farið frekar frjálslega með fjármuni félagsins. Var hann meðal annars spurður um gildi samninga sem DC gerði við Svein Andra um málareksturinn og hvort þeir hefðu tekið til reksturs málsins gegn Valitor. Sagði hann að samningarnir hefðu tekið til allra mála sem DC og SPP hefðu lagt af stað í.

Sveinn Andri krefst skipta á DC á grunni ákvæðis gjaldþrotaskiptalaganna sem heimila kröfuhafa að skora á skuldara um að lýsa því yfir innan þriggja vikna að hann geti efnt skuld sína á gjalddaga. Slík áskorun var birt DC undir lok september. Í október lýsti félagið því yfir að það teldi Svein Andra ekki eiga kröfu á félagið og ef svo væri þá væri félagið borgunarmaður hennar.

„Það er þannig að þótt slíkt svar berist þá leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að kröfuhafi geti ekki krafist gjaldþrotaskipta heldur kemur til sjálfstæðrar skoðunar hvort þetta sé fullnægjandi yfirlýsing. Það gengur ekkert að senda bara tölvupóst og segja „ég get borgað“, því verður að fylgja rökstuðningur,“ sagði Sveinn Andri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .