Seðlabanki Svíþjóðar, Riksbank hefur fékk í dag heimild Seðlabanka Evrópu til að taka út um 3 milljarða evra af 10 milljarða evra gjaldeyrisskiptasamning bankanna.

Þetta gerir bankinn til að undirbúa mögulegt „högg“ á sænska hagkerfið, eins og það er orðað í frétt Reuters af málinu en eins og áður hefur komið fram hafa Svíar verulegar áhyggjur af bankakerfi Eystrasaltsríkjanna en þar eiga sænskir bankar mikið undir.

Sænska fjármálaeftirlitið hefur þegar lýst því yfir að sænskir bankar geti tekið á sig töluvert högg ef illa fer í Eystrasaltsríkjunum. Hins vegar gætu komið upp vandamál við frekari endurfjármögnun og því ákvað Riksbank nú að efla gjaldeyrisvaraforða sinn í þeirri von að róa markaði.

Sem fyrr segir eiga sænskir bankar mikið undir í Eystrasaltsríkjunum en svartsýnustu spár hafa gert ráð fyrir 14 milljarða evra tapa (150 milljarðar sænskra króna) ef bankakerfi ríkjanna hrynja.

Sjá nánar í tengdum fréttum hér að neðan.