Stefnt er að því að næsta endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á efnahagsáætlun Íslands ljúki fyrir miðjan janúar næstkomandi.

Hvort af því verður fer þó eftir niðurstöðu Icesave- málsins á Alþingi, en heimildir Viðskiptablaðsins herma að sjóðurinn telji sig ekki geta lokið endurskoðuninni fyrr en það mál hefur verið afgreitt.

Opinberlega segja fulltrúar AGS að ástæða þess að Icesavedeilurnar skipta máli fyrir endurskoðunina er sú að ekki sé hægt að ljúka henni fyrr en búið er að tryggja fjármögnun fyrir næsta hluta hennar.

Það þýðir að lán frá Norðmönnum og Svíum þurfa að vera tilbúin til afgreiðslu. Skrifað var undir lánasamninga milli Íslands og Svíþjóðar, Noregs, Danmerkur og Finnlands upp á 1,775 milljarða evra 1. júlí síðastliðinn.

Hluti þeirrar upphæðar á að greiðast til Íslendinga við hverja endurskoðun AGS. Í lánasamningum Íslands við bæði Norðmenn og Svía eru hins vegar skýr skilyrði um að það þurfi að ljúka Icesave áður en að gengið verður frá lánum til Íslands frá ríkjunum tveim.

Svíar voru leiðandi í því að svona yrði haldið á málum, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Það sem réð mestu um afstöðu þeirra var að Svíar voru þá að fara að taka við forsæti í Evrópusambandinu (ESB) og vildu sýna það í verki að þeir stæðu fast að baki því að lögum og reglum ESB, meðal annars um innstæðutryggingar, yrði fylgt.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .