Svíþjóð er opin fyrir fjárfestingum svokallaðra ríkisfjárfestingarsjóða, en mun að sama skapi krefjast gagnsæis frá hugsanlegum fjárfestum, að sögn fjármálaráðherra landsins, Mats Odell.

Hann bætti við að afstaða stjórnvalda væri að bjóða ríkisfjárfestingasjóði velkomna. „Við höfum haft mjög góða reynslu af þeim; þeir eru langtímafjárfestar,“ segir Odell.

Fyrr í þessum mánuði keypti kauphöllin í Dubai 6,6% hlut ríkisins í OMX kauphallarsamstæðunni, sem var hluti af samkomulagi Dubai og Nasdaq um að yfirtaka OMX. Þetta kemur fram hjá Dow Jones fréttaveitunni.