Ljóst er að sænska hagkerfið hefur ekki dregist jafn mikið saman á einu ári í tæp 70 ár en á fjórða ársfjórðungi síðasta árs dróst hagkerfið saman um 2,4% eftir að hafa dregist saman um 1% á þriðja ársfjórðungi.

Þannig dróst sænska hagkerfið saman um 4,9% á síðasta ári sem er mesti samdráttur á einu ári frá árinu 1940 að sögn Financial Times.

Blaðið hefur eftir Audrey Childe Freeman, greiningaraðila hjá Brown Brothers Harriman að tíðindin séu mjög slæm en þó að mörgu leyti skiljanleg. Útflutningur telji til um 50% af þjóðarframleiðslu landsins og í ljósi aðstæðna í alþjóðahagkerfinu hefði mátt gera ráð fyrir minni útflutningi.

Þá sagði hún að Rikisbank (sænski seðlabankinn), sem fyrr í þessum mánuði lækkaði stýrivexti sína um 100 punkta niður í 1%, þyrfti að öllum líkindum að lækka stýrivexti sína enn frekar, í það minnsta um 25 punkta. Næsti vaxtaákvörðunardagur Rikisbank er 11. apríl.

Í kjölfar þessa tíðinda hefur sænska krónan nú náð lágmarki gagnvart evrunni og stendur nú í 11,5 krónum.