Vínbúðirnar hafa á undanförnum árum birt auglýsingaherferðir í sjónvarpi, dagblöðum og vefmiðlum. Markaðsstarf Vínbúðanna lýtur þó öðrum lögmálum en markaðsstarf annarra aðila á markaði. „Það er ekkert í okkar markaðsstarfi sem miðar að því að selja meira af vörunni. Það er alveg mjög skýrt í öllu okkar starfi,“ segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri Vínbúðanna. Hún segir að auglýsingar Vínbúðanna séu á sviði samfélagslegrar ábyrgðar.

Sigrún Ósk segir að það sé mismunandi eftir árum hve miklu Vínbúðirnar verja í markaðssetningu og auglýsingar. „Almennt reynum við að keyra auglýsingar í nokkur ár, má þar nefna Svínið og Bíddu skilríkja-herferðina. Framleiðsla og birting auglýsinga er dýr og því mikilvægt að nýta fjármagn sem best,“ segir hún. Spurð að því hvort henni finnist einhver ein auglýsingaherferð vera eftirminnilegri en aðrar segir hún að Svínið hafi vakið mesta athygli og verið tilnefnd til verðlauna á auglýsingahátíðinni í Cannes í flokki samfélagsauglýsinga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.