*

fimmtudagur, 24. september 2020
Erlent 8. febrúar 2020 15:04

Svipmyndir frá Davos

Leiðtogar úr hinum ýmsu geirum mæta árlega á efnahagsráðstefnu Alþjóðahagfræðiráðsins.

Ritstjórn
Rástefnugestir ferðast á milli húsa í Davos.
WEF

Árleg efnahagsráðstefna Alþjóðahagfræðiráðsins (e. World Economic Forum) fór venju samkvæmt fram í Davos í Sviss nú í lok janúar.

Á ráðstefnuna, sem er haldin árlega, mæta um 3.000 manns. Eru þetta að megninu til forstjórar stórfyrirtækja, þjóðarleiðtogar, stjórnmálamenn, formenn alþjóðlegra stofnana, fjárfestar, sem og vísindamenn og fólk úr háskólasamfélaginu. Einn af þeim Íslendingum, sem vanið hafa komu sína á ráðstefnuna er Björgólfur Thor Björgólfsson, eigandi fjárfestingafélagsins Novator.

Markmið forsvarsmanna efnahagsráðstefnunnar í Davos er að setja mál á dagskrá í byrjun hvers árs. Hefur það gengið misvel eins og gengur að skilja. Árið 2016 tókst það til að mynda mjög en þá var kastljósinu beint að fjórðu iðnbyltingunni og hugtakið sem slíkt varð til og hefur verið í umræðunni allt síðan. Þetta sama ár gaf Klaus Schwab, stjórnarformaður Alþjóðaefnahagsráðsins, út bókina The Fourth Industrial Revolution.

Að þessu sinni voru loftslagsmálin í forgrunni ráðstefnunnar, þar sem þemað var samheldni og sjálfbær heimur undir yfirskriftinni Stakeholders for a Cohesive and Sustainable World.

Stakholder capitalism er vinsælt hugtak um þessar mundir. Er hugmyndin sú að í stað þess að fyrirtæki hugsi einungis um hluthafa sína þá eigi ákvarðanir og gjörðir stjórnenda þeirra að þjóna fleirum; starfsfólki, viðskiptavinum, nærsamfélaginu og í raun samfélaginu öllu.

Stofnað árið 1971

Þýski verk- og hagfræðingurinn Klaus Martin Schwab, sem lengst af var prófessor við Háskólann í Genf í Sviss, stofnaði Alþjóðahagfræðiráðið árið 1971. Í fyrstu bar ráðið reyndar annað nafn en nú þekkist eða European Management Forum. Líkt og nafnið gefur til kynna þá var einblínt á Evrópu á þessum tíma og forstjórar fyrirtækja í Vestur-Evrópu boðaðir á fyrstu fundina. Árið 1987 var ákveðið að breikka starfið og boða leiðtoga úr öllum heimshornum á ráðstefnuna. Í kjölfarið var nafninu breytt í World Economic Forum.

Breski mannfræðingurinn og dýraverndarsinninn dr. Jane Goodall flutti ræðu á ráðstefnunni í Davos. Goodall var heimsfræg árið 1962 fyrir rannsóknir sínar á simpönsum. Þetta sama ár varð hún heimsfræg þegar tímaritið National Geographic birti ljósmyndir af henni, þar sem hún átti í einstökum samskiptum við villta simpansa.

Viola Amherd, varnarmálaraðherra Sviss, Ivanka Trump, ráðgjafi og dóttir Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Klaus Schwab, stjórnarformaður Alþjóðahagfræðiráðsins.

Greta Thunberg sést hér á meðal mótmælenda í Davos, með hvíta og gráa húfu og trefil í sömu litum. Hún flutti einnig erindi á efnahagsráðstefnunni. 


Angela Merkel, kanslari Þýskalands, var á meðal ræðumanna á ráðstefnunni í Davos.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna og Simonetta Sommaruga, forseti Sviss. 

Christine Lagarde, bankastjóri Seðlabanka Evrópu og stjórnarmaður í Alþjóðahagfræðiráðinu, í viðræðum fyrir utan Schatzalp hótelið í Davos. 


Sellóleikarinn Yo-Yo Ma skemmti ráðstefnugestum.   

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Fundir & ráðstefnur. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.