Eftir að easyJet gerði hlé á flugi sínu til og frá Basel og Genf í Sviss hefur svissneskum ferðamönnum fækkað um þriðjung. Þetta kemur fram í frétt Túrista .

Þar eð engar áætlunarferðir voru í boði hingað frá Sviss komu 36,8% færri Svisslendingar til Íslands í síðasta mánuði samanborið við árið á undan.

Svisslendingar eru þó verðmætir ferðamenn, en eins og Viðskiptablaðið greindi frá áður eyða þeir mestu af öllum ferðamönnum, en að jafnaði eyddi hver og einn þeirra 203 þúsund krónum á meðan dvöl þeirra stóð - það er næstum tvöfalt meira en ferðamenn eyða hérlendis að jafnaði.

Þá má gera ráð fyrir því að þessi samdráttur í ferðum Svisslendinga til landsins muni verða til þess að íslensk fyrirtæki verði af um 268 milljónum í sölutekjur.