Stjórn Síldarvinnslunnar hefur samþykkt að hefja viðræður við Samherja um kaup á helmingshlut í sölufélaginu Ice Fresh Seafood ehf., sem sérhæfir sig í sölu- og markaðssetningu sjávarafurða frá Íslandi. Ice Fresh Seafood ehf. er að fullu í eigu Samherja hf. sem er jafnframt stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar með 30% hlut.

„Telur stjórnin það rökrétt framhald af vexti og auknum umsvifum Síldarvinnslunnar hf. á síðustu árum, m.a. með kaupum á Vísi hf., að kanna frekari möguleika á því að styrkja sölu- og markaðsmál félagsins,“ segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Fram kemur að Ice Fresh Seafood hafi m.a. séð um sölu á hluta afurða Síldarvinnslunnar og Vísis á undanförnum árum. Sölunet fyrirtækisins nær til yfir 60 landa.

Velta Ice Fresh Seafood namm 332,2 milljónum evra árið 2021, eða sem nemur 49 milljörðum króna á gengi dagsins. Félagið hagnaðist um 1,8 milljónir evra eða um 250 milljónir króna. Eignir félagsins voru bókfærðar á 78,6 milljónir evra í árslok 2021, eða sem nemur 11,7 milljörðum króna miðað við núverandi gengi krónunnar. Eigið fé var 26,2 milljónir evra eða um 3,9 milljarðar króna.

Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar og forstjóri Samherja hf., tekur ekki tekið þátt í meðferð máls þessa og ákvörðun innan stjórnar Síldarvinnslunnar að ‏því er segir í tilkynningunni.