Tónlistarveita Apple, Apple Music, fer í loftið um allan heim í dag og hefst þá samkeppnin við Spotify og Pandora.

Til að nota Apple Music þarf að uppfæra stýrikerfið sitt upp í iOS 8.4, auk þess þurfa Mac og PC tölvur að hlaða niður nýjasta iTunes. Nýja útgáfan af iOS verður í boði frá klukkan 11 í morgun á bandarískum tíma. Apple Music verður ókeypis fyrstu þrjá mánuðina og eftir það fer greiðsla upp á 9,99 dollara sjálfkrafa í gegn einu sinni í mánuði. Hægt er að fá fjölskyldupakka á 14,99 dollara á mánuði.

Hægt er að notfæra sér hjálp Siri við að nota veituna, til dæmis með því að biðja hana um að spila ákveðið lag eða lagalista. Siri getur fundið lög eftir dagsetningu til að mynda geturðu beðið Siri um að spila vinsælasta lagið daginn sem þú fæddist eða á öðrum stundum.

Apple Music mun skanna tónlistarsafnið þitt til að finna tónlist og mun geyma tónlistina á iCloud Music Library. Þetta þýðir að maður geti hlustað á alla tónlistina sína hvar sem er í gegnum Apple Music. Hins vegar verður maður að passa að eyða ekki tónlistinni á iTunes þar sem Apple Music er ekki back up tæki.

Hægt að hlusta offline

Eitt það besta við Apple Music er að maður getur tekið niður lög, lagalista eða albúm þaðan og hlustað á það offline. Það eru engin takmörk á því hversu mörg lög maður getur náð í svona eða hversu lengi maður getur hlustað á þau.

Það er auðvelt að finna nýja tónlist með appinu þar er listi yfir ný lög, vinsældarlistar og lagalistar og útvarpsstöðvar eftir týpu af tónlist. Apple er meira að segja búin að búa til útvarpsstöðina Beats 1 sem mun varpa út live tónlist fyrir notendur út um allan heim 24 tíma á dag.

Apple Music býður einnig upp á For You hluta þar sem veitan mun reyna að giska hverju þú gætir haft gaman af.