Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa sent utanríkisráðherra erindi þar sem þess er farið á leit að samtökin fái aðild að starfshópi um mótun samningsafstöðu Íslands í landbúnaðarviðræðum í tengslum við aðildarviðræður við Evrópusambandið (ESB).

Í tilkynningu frá samtökunum segir að þau sjái sig knúin til að beina athyglinni aftur að þessu máli í ljósi umræðu undanfarna daga og er athygli ráðherra vakin á því að á sínum tíma þegar starfshópur um mótun samningsafstöðu í landbúnaðarmálum var skipaður gerðu samtökin strax athugasemdir við að þeim var ekki gefinn kostur á að skipa fulltrúa í hópinn.

Þá segir að í ljósi umræðna undanfarinna daga skjóti skökku við að verslunin hafi ekki fulltrúa í starfshópnum þrátt fyrir að verslun hafi afar mikilla hagsmuna að gæta.