Sænski bankinn Swedbank tilkynnti í morgun um nýja hlutafjáraukningu að verðmæti 15 milljarða sænskra króna eða um 2,1 milljarð Bandaríkjadala.

Að mati greiningaraðila í Evrópu kemur hlutafjáraukningin nokkuð á óvart því fyrir um mánuði síðan sagði Michael Wolf, forstjóri Swedbank eftir stjórnarfund að bankinn stæði vel að vígi og væri vel í stakk búinn til að takast á við mögulegar afskriftir vegna útlána bankans í Eystrasaltsríkjunum.

Eins og áður hefur komið fram er talið að sænskir bankar muni horfa fram á erfiða tíma næstu mánuði vegna útlána Eystrasaltsríkjunum. Stjórnendur Swedbank sögðu í morgun að með nýju hlutafjárútboði, sem er annað hlutafjárútboðið á innan við ári, væri bankinn að afla sér fé til að mæta fyrirsjáanlegum afskriftum og gæti þannig haldið uppi eðlilegri útlánastarfssemi. Þá kæmi hlutafjárútboð einnig í veg fyrir það að bankinn þurfi á ríkisaðstoð að halda.

Gengi hlutabréfa hefur nú lækkað um 3,4% það sem af er degi í Kauphöllinni í Stokkhólmi en hafði um tíma í morgun lækkað um tæp 7%.

Reuters fréttastofan hefur eftir ónafngreindum greiningaraðila að þrátt fyrir að hlutafjáraukningin kæmi á óvart og sýndi nú viss veikleikamerki myndi hún, þegar rykið hefði sest, reynast jákvæð og hjálpa bankanum að fara í gegnum erfiðleika á mörkuðum.

Swedbank hefur aukið hlutafé sitt um 1,5 milljarð dala á síðustu 12 mánuðum. Breska blaðið Financial Times hefur Carl Eric Stalberg, stjórnarformanni Swedbank að bankinn muni nú einbeita sér að áhættuminni fjárfestingum og útlánum.