Eiríkur Sigurðsson og Helga Gísladóttir, fyrrverandi eigendur verslunarinnar Víðis, voru í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær sýknuð af kröfum tveggja félaga um greiðslu samtals 80 milljón króna, auk vaxta og dráttarvaxta, í skaðabætur. Stjórnendur félaganna tveggja, DFT ehf. og Delo ehf., áður Bacco ehf., töldu að blekkingum hefði verið beitt í aðdraganda lánveitingar til Víðis skömu áður en félagið fór í þrot.

Á haustmánuðum 2017 var farið að halla undan fæti hjá Víði en keðjan óskaði eftir láni hjá viðskiptabanka sínum upp á 115 milljónir króna gegn veði í innréttingum og tækjum. Því var hafnað og tæplega helmingi lægri fjárhæð boðin. Var þá óskað eftir 90 milljón króna láni en því einnig hafnað.

Í kjölfar þess var afráðið að leita til Arctica Finance til að reyna að endurfjármagna skuldir félagsins. Ljóst þótti að það tæki tíma og því reynt að finna brúarfjármögnun til skamms tíma. Varð það úr í desember 2017 að DFT, sem er í eigu Davíðs Freys Albertssonar, og Delo, fyrirsvarsmaður þess var Sigurður Gísli Björnsson, oft kenndur við Sæmark, keyptu hvort um sig 40 milljón króna skuldabréf af Víði gegn veði í öllum hlutum í félaginu. Hálfu ári síðar var félagið tekið til gjaldþrotaskipta.

„Það er niðurstaða okkar, byggt á framangreindri umfjöllun, að félagið hafi verið komið í veruleg fjárhagsleg vandræði um mitt ár 2017 og hafi verið orðið ógjaldfært í byrjun desember 2017 þegar stjórnendur félagsins fengu ekki frekari lánveitingu hjá viðskiptabanka sínum og neyddust til að leita til einkafyrirtækja um skammtímalánveitingu með 20% vöxtum með veði í öllu hlutafé félagsins,“ sagði í skýrslu EY til skiptastjóra félagsins.

Blekkt og leyst til sín eignir

Krafa félaganna tveggja var studd þrenns konar rökum. Í fyrsta lagi hefðu stjórnarmenn Víðis beitt blekkingum í aðdraganda lánveitingarinnar, í öðru lagi hefði staða þess verið slík á þeim tíma að borið hefði að taka það til skipta og í þriðja lagi að þau hefðu dregið sér eignir félagsins eftir að til lánveitingar kom. Brúarlánið hefði keypt félaginu gálgafrest og gert stjórnendunum kleift að ná til sín verðmætum úr félaginu. Af þeim sökum sé nær útilokað að nokkuð muni fást upp í kröfur.

Hjónin sögðu á móti af og frá að þau hefðu beitt blekkingum, veitt rangar upplýsingar eða að félagið hefði verið ógjaldfært. Lánveitendum hefði verið morgunljóst að um áhættusöm viðskipti hefði verið að ræða og endurspeglaðist það í vaxtakjörunum. Því til viðbótar hafi eigendur og stjórnendur félaganna tveggja haft áralanga reynslu í viðskiptum og vel getað gert sér grein fyrir áhættunni.

Bentu þau meðal annars á tölvupóst frá starfsmanni Arctica Finance þar sem fram kom að rekstrarstaðan væri slæm auk þess að þeim hefði verið kunnug að á Víði hvíldi 200 milljón króna yfirdráttarlán og samtals skuldir verið að lágmarki 600 milljónir króna.

„Stefndu andmæla því að þau hafi flutt eignir frá Víði ehf. til sín. Vandséð sé hvernig stefndi Eiríkur geti borið ábyrgð á því að stefnda Helga fékk greidd ógreidd laun og á sama hátt hvernig stefnda Helga geti borið ábyrgð á því þótt stefndi Eiríkur hafi fengið greidd laun og orlof hjá Víði ehf. fyrir gjaldþrot félagsins. Á sama hátt sé vandséð hvernig stefndi Eiríkur geti borið ábyrgð á meintum aðgerðum stefndu Helgu sem stjórnarformanns við að flytja eignir út úr félaginu,“ segir í málsástæðukafla hjónanna.

Framkvæmdu ekki áreiðanleikakönnun

Í niðurstöðu dómsins var lagt til grundvallar að um tvo jafnsetta aðila hefði verið að ræða og hallað hefði á hvorugan. Var það gert með vísan til stuttrar viðskiptasögu aðila, reynslu stjórnenda félaganna af viðskiptum og 20% vöxtum skuldabréfsins.

„Þótt stefnandi hafi að sönnu mátt treysta þeim upplýsingum sem honum voru veittar, svo og þeim aðilum sem að viðskiptunum komu, þá leysir það hann ekki undan skyldu til að sýna eðlilega árvekni í viðskiptunum, þ.m.t. til að kalla eftir frekari skýringum og gögnum ef þurfa þótti,“ segir í dóminum og vísað til þess að auðvelt hefði verið að láta áreiðanleikakönnun fara fram.

Í dóminum kemur enn fremur fram að samkvæmt ársreikningi Víðis 2016 hafi birgðir numið 396 milljónum króna. Í ársreikningi 2017, sem samþykktur var um mánuði fyrir gjaldþrot, voru birgðir metnar á 459 milljónir. Að mati dómsins þótti ekki unnt að slá því föstu að birgðir hefðu verið ofmetnar þótt aðeins hafi fengist 24 milljónir króna við sölu skiptastjóra á þeim þar sem þau viðskipti höfðu farið fram við aðrar aðstæður. Einnig þótti líklegt að hluti birgða hefði verið ferskvara sem vafalaust hefði spillst frá þroti og fram að sölu birgða.

Málsástæðu um að Víðir hefði brotið gegn skilmálum skuldabréfsins var ekki veitt brautargengi þar sem hún þótti of seint fram komin enda hennar ekki getið í stefnu. Þá féllst dómurinn ekki á að félagið hefði verið í þeirri stöðu í desember 2017 að borið hefði að gefa það upp til gjaldþrotaskipta. Lánalína hefði fengist og reynt hefði verið að selja eignir, að vísu árangurslaust, til að einfalda reksturinn.

Kröfu um bætur þar sem þau hefðu leyst til sín eignir var einnig hafnað. Það var gert á þeim grunni að félögin hefðu lýst kröfu í búið og gætu ekki samtímis gert kröfu beint á hjónin vegna sömu atvika. Félögunum var hvoru um sig gert að greiða Helgu 1.325 þúsund krónur í málskostnað og Eiríki 625 þúsund krónur.

Leiðrétt 22.27 Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar sagði að dómurinn hefði verið kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness en hið rétta er að hann var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur. Leiðréttist það hér með.