*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 16. maí 2018 18:07

Sýn hagnast um 56 milljónir

Tekjuaukning Sýnar var umfram væntingar, en samlegðaráhrif vegna kaupanna á 365 miðlum eru enn ekki komin fram.

Ritstjórn
Stefán Sigurðsson, forstjóri Sýnar.
Haraldur Guðjónsson

Fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækið Sýn hagnaðist um 56 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi. Um er að ræða 72% samdrátt í hagnaði milli ára. Leiðrétt fyrir kaupum Sýnar á eignum og rekstri 365 miðlum í desember hagnaðist félagið um 150 milljónir króna og dróst hann saman um þriðjung milli ára. Þetta kemur fram í árshlutareikningi Sýnar fyrir fyrsta ársfjórðung. 

Sala Sýnar á vörum og þjónustu nam 5,3 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins og jókst um 69% milli ára. Framlegð nam 2,1 milljarði og jókst um 47%. Rekstrarkostnaður nam 1,9 milljörðum og jókst um 74% milli ára. EBITDA nam 718 milljónum og stóð í stað, en leiðrétt fyrir einskiptisliðum vegna kaupanna á 365 nam EBITDA 833 milljónum og jókst um 11% milli ára.

Fjölmiðlun skilaði 2,2 milljörðum í tekjur samanborið við 517 milljónir árið áður. Internetþjónusta skilaði 1,2 milljörðum í tekjur og farsímaþjónusta skilaði tæplega 1,1 milljarði. Tekjur af fastlínu, vörusölu og öðru skilaði 875 milljónum.

Eignir Sýnar námu 25,6 milljörðum í lok mars og var eiginfjárhlutfall 39,7%. Fjárfestingar á fjórðungnum námu 522 milljónum og jukust um 61% milli ára. Handbært fé lækkaði um 77 milljónir milli ára og nam 241 milljónum í lok mars.

Samkvæmt tilkynningu Sýnar til Kauphallarinnar eru samlegðaráhrifin vegna kaupanna á 365 en ekki komin fram. EBITDA-spá félagsins fyrir árið er óbreytt í 4-4,4 milljörðum. Áætlað er að sameinað félag Sýnar og 365 miðla muni skila meira en 5 milljörðum í EBITDA árið 2020.

Tekjur umfram væntingar

Stefán Sigurðsson, forstjóri Sýnar, segir tekjur félagsins hafa aukist umfram væntingar á fjórðungnum.

„Það er ánægjulegt að sjá fyrsta fjórðung sameinaðs fyrirtækis skila tekjuaukningu upp á 69% sem er umfram væntingar. Fyrsta skref samrunans hefur verið að tryggja yfirfærslu viðskiptavina og tekna félagsins sem hefur tekist vel hingað til, þrátt fyrir mikið álag í tengslum við samþættingu. Kostnaður fjórðungsins er hár enda samlegðar ekki tekið að gæta í neinum mæli, auk þess sem samrunakostnaður er talsverður í fjórðungnum, sem og afskriftir og skuldsetning hækka með stærri efnahag. Verkefni ársins er að lækka kostnað sameinaðs félags en samlegð mun skila sér af sífellt meiri krafti eftir því sem líður á árið. Stendur félagið við þær áætlanir að 1.000-1.100 milljónir í samlegð verði náð fram innan 18 mánuða, það er um 60% af heildaraukningu EBITDA við kaupin. Áfram er einnig gert ráð fyrir að sameinað félag skili meira en 5 ma.kr. EBITDA árið 2020.

Sameinað fyrirtæki undir merkjum Sýnar er mjög alhliða og sterkt í fjarskiptum og fjölmiðlun. Fyrirtækið er til dæmis annað stærst samkvæmt nýrri skýrslu PFS þegar kemur að markaðshlutdeild á farsímamarkaði (32,8%), gagnatengingum (37,1%) og gagnvirku sjónvarpi IPTV (47,4%) við lok ársins 2017.   

Fyrstu mánuðir samrunans fara vel af stað og hann á að geta verið mjög jákvæður gagnvart öllum haghöfum. Auk þess að geta skilað meira en 5 ma.kr. í EBITDA árið 2020, munu starfsmenn á árinu vera sameinaðir á einn stað í nýjum og glæsilegum höfuðstöðvum að Suðurlandsbraut 8-10 og gagnvart neytendum lækkaði verð á völdum sjónvarpspökkum og aðrir stækkuðu. Þessar breytingar hafa verið hluti af áætlunum í tengslum við kaupin frá upphafi og þar af leiðandi inn í horfum sameinaðs félags. Með þessari aðgerð er ætlunin að sækja fram og gefa enn fleirum kost á að gerast áskrifendur að hágæða íslensku og erlendu sjónvarpsefni og íþróttum.“

Stikkorð: 365 miðlar uppgjör Sýn