*

miðvikudagur, 26. febrúar 2020
Fólk 2. maí 2019 12:15

Sýn ræður Signýju og Þórhall

Signý Magnúsdóttir og Þórhallur Gunnarsson eru nýir yfirmenn hjá Sýn og stýra fjármálum og Miðlum.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Sýn hf. hefur ráðið Signýju Magnúsdóttur sem fjármálastjóra Sýnar hf. frá 1. júní næstkomandi og Þórhall Gunnarsson sem framkvæmdastjóra Miðla frá og með 22. maí næstkomandi en undir Miðla heyra m.a. fjölmiðlarnir Stöð 2, Stöð 2 sport og útvarpsstöðvarnar Bylgjan, FM957 og Xið977 auk Vísis.

Signý Magnúsdóttir lauk meistaranámi í reikningsskilum og endurskoðun við Háskóla Íslands árið 2007 og hlaut löggildingu til endurskoðunar árið 2011. Signý hóf störf hjá Deloitte árið 2006 og varð meðeigandi á endurskoðunarsviði félagsins árið 2013.

Hjá Deloitte sinnti Signý einna helst endurskoðun og ráðgjöf á sviði reikningsskila fyrir meðalstór og stór fyrirtæki, þar á meðal skráð fyrirtæki og fyrirtæki sem starfa í alþjóðlegu umhverfi. Signý er yfirmaður reikningsskilaþjónustu Deloitte ásamt því að vera í forsvari fyrir líftækni- og heilbrigðishóp Deloitte. Signý situr í Reikningsskilaráði.

Þórhallur Gunnarsson er með meistaragráðu í sjónvarpsþáttagerð frá Goldsmiths, University of London og hefur undanfarin 6 ár verið framkvæmdastjóri sjónvarps og kvikmyndadeildar Sagafilm. Þar áður var hann dagskrárstjóri RÚV, ritstjóri Kastljóss, auk þess sem hann hefur stýrt fjölmörgum sjónvarpsþáttum af öllu tagi, m.a. Íslandi í dag á Stöð 2.

Þórhallur hefur átt sæti í framkvæmdastjórn RÚV og stjórn Sagafilm. Hann hefur undanfarin ár verið framleiðandi margra stærstu sjónvarpsþátta á Íslandi, hvort sem um er að ræða leiknar sjónvarpsþáttaseríur, heimildarmyndir, fræðsluefni eða skemmtiþætti. Þórhallur kennir einnig miðlun upplýsinga við MBA nám Háskóla Íslands.