Franska flugfélagið Air France-KLM hefur í samstarfi við bandaríska flugfélagið Delta Airlines hafið undirbúning að því að bjóða í 51% hlut Richard Branson í breska flugfélaginu Virgin Atlantic.

Branson er sem kunnugt er stofnandi Virgin Atlantic en fyrir stuttu tilkynnti Branson að hann hefði hug á því að selja félagið.

Air France-KLM og Delta Airlines eru sameiginlega aðilar að SkyTeam samkomulagi sem í stuttu máli þýðir að viðskiptavinir félaganna geta nýtt vildarpunkta hjá hvoru félagi um sig auk þess sem þeir geta pantað lengri ferðir með báðum félögum á einum stað. Þannig mynda félögin tengingu til allra áfangastaða hvors félags.

Breska blaðið Telegraph greindi frá því í gær að félögin tvö hefðu fengið bandaríska fjárfestingabankann Goldam Sachs til að undirbúa tilboð á hlut Branson í Virgin Atlantic. Hlutur Branson er metinn á bilinu 500 til 1.000 milljón Sterlingspunda en sjálfur hefur Branson fengið þýska bankann Deutsche Bank til að meta hlutinn eins og áður hefur komið fram.

Á móti Branson á Singapore Airlines 49% í Virgin Atlantic en þann hluta keypti félagið á 600 milljónir punda árið 1999.

Mikið hefur verið fjallað um samkeppnismál flugfélaga, þá sérstaklega félaga sem fljúga yfir Atlantshafið. Síðla árs 2009 gerðu British Airways og American Airlines með sér samkomulag í takt við fyrrnefnt samkomulag Air France-KLM og Delta en Branson hefur ítrekað mótmælt því að samkeppnisyfirvöld, bæði í Bretlandi og Evrópu, skyldu leyfa slíka samninga.