Grænbók um málefni sveitarfélaga er ekki sú eina sem hefur verið í opinberu samráði af hálfu samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytisins. Hið sama gildir einnig um málefni flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi.

„Stærstu flugvellir landsins hafa verið byggðir af erlendum herjum sem við höfum nýtt í borgaralegum tilgangi. Í byrjun næsta mánaðar á flug á Íslandi 100 ára afmæli en aldrei hefur verið mörkuð nein stefna hvaða áhrif flug á að hafa á samfélagið,“ segir Sigurður Ingi.

Reglulega hefur verið kallað eftir því, samhliða auknum straumi ferðamanna, að fleiri áfangastaðir en Keflavík standi til boða sem tenging inn í landið. „Í ríkisstjórninni 2013-16 komum við á fót flugþróunarsjóði sem hefur ekki gengið nógu vel. Reynsla okkar, og annarra þjóða, er að þetta verkefni sé þungt undir fæti. Því er afar mikilvægt að til sé plagg sem segir okkur hvert skuli stefna.“

Ráðherrann segir að uppbygging á Keflavíkurflugvelli hafi gengið vel samhliða auknum fjölda farþega. Nauðsynlegt sé hins vegar að bæta varaflugvelli landsins. Þar hafi verið einblínt á Egilsstaða- og Reykjavíkurflugvöll. Um framtíð síðarnefnda vallarins hafa verið stofnaðir gríðarmargir starfshópar en einn slíkur á að skila af sér á næstu vikum.

„Niðurstaðan þar verður að það þarf að lágmarki tvö ár til viðbótar í að kanna veður- og flugskilyrði áður en þú ætlar að taka ákvörðun um að taka nokkurn skapaðan hlut. Þar verða menn að bera saman epli og epli og tala um eitthvað sem er raunverulegt en ekki eitthvað sem einhvern langar,“ segir Sigurður Ingi.

Spár Alþjóðasambands flugfélaga (IATA) gera ráð fyrir því að flugumferð muni tvöfaldast, frá því sem nú er, árið 2030 og hafa fjórfaldast árið 2050. Flugframleiðendur hafa hins vegar kynnt til sögunnar nýjar þotur sem gera beint flug yfir Atlantshafið, án viðkomu á Íslandi, auðveldari.

„Flugið, eins og aðrir geirar, þarf að glíma við áskoranir í loftslagsmálum. Þar á sér stað spennandi þróun með orkugjafa á borð við rafmagn. Þær munu þróast áfram og komast lengra en í dag en þær munu án efa ekki geta farið yfir allt hafið. Ég held að þarna, í orkuskiptum í fluggeiranum, felist tækifæri fyrir Ísland,“ segir Sigurður Ingi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .