Vinna við upplýsingaöflun til að meta hvaða áhrif nauðasaningur Glitnis hefur er vel á veg komin, segir í bréfi Seðlabankans til slitastjórnar Glitnis. Bréfið, sem bankinn birti nú síðdegis, er svar við ósk Glitnis um að fá undanþágu frá gjaldeyrishöftum til að ljúka við gerð nauðasamnings. Síðan segir í svarinu að vinnunni sé aftur á móti ekki lokið og á þeirri ástæðu sé ekki hægt að taka afstöðu til undanþágubeiðnarinar.

„Þó að nákvæmri greiningu sé ekki lokið liggur þegar fyrir að Seðlabanki Íslands getur ekki gefið jákvætt svar við undanþágubeiðni slitastjórnar Glitnis nema að fyrir liggi lausn varðandi þær eignir sem munu að óbreyttu hafa neikvæð áhrif á greiðslujöfnuð Íslands við það að eignir búsins verði greiddar út til kröfuhafa, sem eru, eins og fram kemur í sérriti Seðlabanka Íslands nr. 9, 93,8% erlendir,“ segir í bréfi Más Guðmundssonar seðlabankastjóra til slitastjórnar.

Slitastjórnin sagði í morgun að ákveðins misskilnings gætti í svari Seðlabankans. „Við teljum að misskilningurinn liggi í því að undanþágubeiðnin eins og hún er lögð fram hafi ekki áhrif á greiðslujöfnuð Íslands,“ sagði Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, í samtali við VB.is.