Ræstingafyrirtækið Sólar ehf. hefur fest kaup á fyrirtækinu Táhreint ehf. og færast þrír starfsmenn þess síðarnefnda yfir til Sólar eftir kaupin. Ólafur Eggertsson, stofnandi Táhreint, verður deildarstjóri sérverkefnadeildar Sólar en á meðal verkefna deildarinnar er sýruþvottur, djúphreinsun og viðhald flísa og illgresiseyðing.

Þórsteinn Ágústsson, framkvæmdastjóri Sólar, segir fyrirtækið nú enn betur í stakk búið til að veita fyrirtækjum og stofnunum af öllum stærðum og gerðum heildarþjónustu.

„Við erum á meðal stærstu ræstingafyrirtækja landsins, þjónustum marga og auðvitað eru þarfir viðskiptavina okkar mismunandi. Sú viðbót og þekking sem kemur með starfsfólki Táhreint inn til okkar gerir það að verkum að við höfum meira vöruframboð og búum nú yfir meiri sérþekkingu á fleiri sviðum ræstinga,“ segir Þórsteinn.

Um Sólar

Hjá Sólar starfa nú hátt í 350 manns en fyrirtækið er í fréttatilkynningu sagt brautryðjandi í umhverfismálum meðal ræstingafyrirtækja þar sem það sé fyrst slíkra fyrirtækja til að hljóta Svansvottun, en öll ræstiefni sem notuð eru hjá fyrirtækinu hafa slíka vottun.

„Við erum auðvitað þátttakendur í vistkeðjunni og höfum það fyrir stefnu að vera ábyrg sem slík,“ segir Þórsteinn sem segir starfsfólkið leggja mikið upp úr því að bera virðingu fyrir umhverfinu.