Bankaráð Landsbankans fundar í dag um hvort fresta eigi aðalfundi bankans að kröfu Bankasýslu ríkisins, samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum.

Aðalfundur Landsbankans er boðaður kl. 16 á morgun, 20. mars. Á dagskrá er meðal annars kosning bankaráðs og ákvörðun um greiðslu arðs og meðferð hagnaðar á næstliðnu reikningsári.

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, sendi í gærkvöldi bréf til bæði fjármálaráðherra og bankaráðs Landsbankans vegna fyrirhugaðra kaupa bankans á TM tryggingum af Kviku banka.

Í bréfinu kemur fram að Bankasýslan hefur gert kröfu um að aðalfundi Landsbankans verði frestað um fjórar vikur. Jafnframt fer Bankasýslan fram á að bankaráð Landsbankans skili stofnuninni greinargerð um viðskiptin á næstu sex dögum.

Bankasýslan óskar eftir að bankaráð lýsi aðdraganda tilboðsins í TM, ákvörðunartökunni, forsendum og rökum viðskiptanna, skyldum Landsbankans gagnvart Banksýslunni samkvæmt samningi frá desember 2010 og ákvæðum eigendastefnu ríkisins.

Í bréfi Jóns Gunnars segir að Bankasýslunni hafi verið alls ókunnugt um kaup Landsbankans á TM af Kviku áður en tilkynnt var formlega um viðskiptin. Bankasýslan hafi ekki fengið upplýsingar um fyrirætlanir Landsbankans að leggja fram skuldbindandi tilboð í TM, né heldur þegar tilboðið var lagt fram. Jón Gunnar tók jafnframt undir þau rök og áhyggjur sem fjármálaráðherra hefur viðrað um viðskiptin.

Formaður og varaformaður á útleið

Fyrir rúmum mánuði var tilkynnt um að Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbankans, hefði ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu í bankaráði. Þá mun Berglind Svavarsdóttir, varaformaður bankaráðs, ekki heldur gefa kost á sér.

Bankasýsla ríkisins hefur lagt til að Jón Þorvarður Sigurgeirsson, fráfarandi efnahagsráðgjafi viðskiptaráðherra, og Danielle Pamela Neben taki sæti í bankaráð. Jafnframt lagði Bankasýslan til að Jón yrði kjörinn formaður bankaráðs.

Bankasýsla ríkisins lagði fyrr í mánuðinum til að eftirtaldir einstaklingar verði kjörnir aðalmenn í bankaráði Landsbankans.

  • Jón Þorvarður Sigurgeirsson
  • Danielle Pamela Neben
  • Elín H. Jónsdóttir, tók sæti í bankaráði í mars 2021
  • Guðbrandur Sigurðsson, tók sæti í bankaráði í apríl 2019
  • Guðrún Blöndal, kjörinn aðalmaður í bankaráði í mars 2021.
  • Helgi Friðjón Arnarson, tók sæti í bankaráði í mars 2021.
  • Þorvaldur Jacobsen, kjörinn aðalmaður í bankaráði í apríl 2021.