Viðræður hóps íslenskra lífeyrissjóða um fjármögnun tæplega þriðjungs af kísilveri PCC á Bakka við Húsavík eru mjög langt komnar. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu, sem kveðst hafa heimildir fyrir þessu. Einhverjir þættir séu þó enn ófrágengnir.

Nú stendur yfir vinna við heildarfjármögnun félagsins og verður stærsti hlutinn fjármagnaður af þýska bankanum KFW með baktryggingu frá þýska ríkinu. Það sem eftir stendur verður fjármagnað af PCC og íslenskum lífeyrissjóðum. Bygging kísilversins er talin muni kosta um 25-30 milljarða króna.

Meðal lífeyrissjóða sem hafa tekið þátt í viðræðunum eru Almenni lífeyrissjóðurinn, Festa, Gildi, Stafir, Stapi og lífeyrissjóðir í vörslu Arion banka, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.