Kínversk yfirvöld hafa gefið út ítarlegri reglur um fasteignaviðskipti erlendra aðila þar í landi, en í júlí síðastliðnum kynnti ríkisstjórnin takmarkanir sem settar voru á hverjir mega kaupa þar fasteignir, segir í frétt Financial Times.

Samkvæmt reglunum þurfa erlendir aðilar nú að fá samþykki ríkisstjórnarinnar til að flytja út hagnað sem hlýst af sölu fasteigna þar í landi. Erlendir fjárfestar þurfa nú að greiða fyrir hlutabréf eða yfirtöku kínverskra fasteignafyrirtækja með reiðufé. Yfirvöld þar í landi munu einnig auka eftirlit með fasteignaviðskiptum með erlendum gjaldmiðlum, segir í fréttinni.

Samkvæmt reglunum sem kynntar voru í júlí geta aðeins erlend fyrirtæki sem eru með aðsetur í Kína eða erlendir einstaklingar sem hafi búið þar í eitt ár keypt þar fasteignir og má fasteignin aðeins vera til eigin nota. Til að kaupa fasteign sem ætluð er til annarra nota, yrðu erlendir aðilar að stofna fjárfestingarfyrirtæki í Kína og kaupa fasteignina í gegnum það.

Kínversk yfirvöld fullyrða að með lögunum sé ekki verið að bola erlendum fjárfestum út, heldur til að sporna við spákaupmennsku sem hafi tvöfaldað fasteignaverð í sumum kínverskum borgum að undanförnu, segir í fréttinni.