„Samskipti aðila bera þess einnig vitni að eigendur Insolidum ehf. höfðu bæði mikla þekkingu á viðskiptum á verðbréfamarkaði og reynslu af viðskiptum með stofnfjárbréf sparisjóða." Þetta má lesa í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Insolidum gegn Saga Capital vegna viðskipta með stofnfjárhlutabréf í Spron en dómur féll í gær.

Ein aðalkrafa eigenda Insolidum, Daggar Pálsdóttur og Páls Ágústs Ólafssonar, var einkum á því reist að stofnfjárbréfin hafi í reynd ekki staðið undir því kaupverði sem um var samið, og hafi Saga Capital verið það ljóst. Vegna tengsla Saga Capital við við Sundagarða, fyrrverandi eiganda stofnfjárhlutanna, hafi hann búið yfir innherjaupplýsingum um verðmæti hlutanna og hafi Saga Capital hagnýtt sé þær upplýsingar með ólögmætum hætti og beitt aðalstefnendur blekkingum til þess að koma viðskiptum á. Af þessum sökum hafi hið selda verið haldið slíkum göllum að riftun varði.

Dómurinn bendir á í niðurstöðu sinni að í gögnum málsins komi fram að eigendur Insolidum ehf., Dögg Pálsdóttir og Páll Ágúst Ólafsson, leituðu til Saga Capital í maí og júní 2007 um fjármögnun fjárfestinga félagsins. Í málaleitan þeirra kom fram að þau hefðu trú á fjárfestingum í stofnfjárbréfum sparisjóða og hefðu þá þegar staðið í nokkrum slíkum, einkum í bréfum SPRON og Sparisjóðsins Byrs. Fjárfestingarnar hefðu skilað góðum arði og vildu þau auka stofnfjáreign sína í þessum sparisjóðum, og hugsanlega fleiri sparisjóðum þar sem völ væri á stofnfjárbréfum. Til tryggingar fyrirhugaðri fjármögnun buðu þau fram handveð í sjálfum stofnfjárbréfunum, en einnig hlutabréf sín í Insolidum ehf., ef þörf krefði.

Dómurinn taldi að ekki væri um villst, að eigendur Insolidum ehf. áttu frumkvæði að því að óska eftir liðsinni Saga Capital, bæði um fjármögnun fjárfestinga félagsins, en einnig um kaup á stofnfjárbréfum sparisjóða.

Einnig daldi dómurinn að samskipti aðila beri þess einnig vitni að eigendur Insolidum ehf. höfðu bæði mikla þekkingu á viðskiptum á verðbréfamarkaði og reynslu af viðskiptum með stofnfjárbréf sparisjóða. Fyrir liggur einnig að tilgangur Insolidum ehf. var m.a. kaup, sala og eignarhald á hlutabréfum og öðrum verðbréfum og hafði félagið hagnast mikið á slíkum viðskiptum. Báðir eru eigendur félagsins lögfræðingar að mennt og sagði Páll Ágúst fyrir dómi að hann þekkti þær reglur sem giltu um sparisjóði, að stofnfjárbréf væru ekki skráð á skipulegum verðbréfamarkaði og að reglur um innherja tækju ekki til viðskipta með stofnfjárbréf.