Tap af rekstri sænska lággjaldaflugfélagsins FlyMe, sem er að hluta til í eigu eignarhaldsfélagsins Fons, jókst í 64,8 milljónir sænskra króna (644 milljónir íslenskra króna) úr 24,3 milljónum sænskra króna á fyrsta fjórðungi 2006, segir í fréttatilkynningu.

Fyrirtækið segir ástæðuna fyrir tapinu vera kostnað við að auka flugleiðir félagsins, en félagið hóf flug til 11 nýrra áfangastaða á árinu. Bókafærður kostnaður vegna nýju áfangastaðanna nam 54,1 milljón sænskra króna.

Í tilkynningu félagsins segir að áætlað sé að viðsnúningur verði á rekstrinum í lok ársins 2006.

Viðskiptablaðið greindi frá því þann 12. maí að FlyMe hefur átt í samrunaviðræðum við norræna keppinautinn Sterling Airlines, sem Fons seldi FL Group í fyrra fyrir 15 milljarða króna.

Björn Olegaard, stjórnarformaður FlyMe sagði í samtali við Viðskiptablaðið að félagið hafi huga á að taka þátt í samþjöppun á evrópska flugmarkaðnum og hefur fyrirtækið útbúið lista með nöfnum á 4-6 félögum sem mögulegt væri að taka yfir.

Heimildarmenn blaðsins segja það muni skipta megin máli um framtíðaráætlanir fyrirtækisins hvort að lággjaldafélagið Fly Nordic, sem er í eigu Finnair, muni samþykkja að taka þátt í samstafinu. FL Group á 10% hlut í Finnair.

Sterling er í eigu FL Group, en fyrirtækið keypti sameinað Sterling og Mærsk Air fyrir 15 milljarða í fyrra Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að ekki sé í raun og veru um beina yfirtöku FlyMe á Sterling að ræða heldur "öfuga yfirtöku" (e. reverse takeover) og að möguleikinn hafi verið fyrir hendi þegar ákveðið var að FL Group keypti Sterling-samstæðuna. Það er því FL Group sem mun verða stærsti hluthafinn í FlyMe ef samningar nást.

Eignarhaldfélagið Fons er stærsti hluthafinn í FlyMe, með rúmlega 20% hlut, og hefur félagið aukið við eignarhlut sinn jafnt og þétt frá því að Sterling-samstæðan var seld.

FlyMe hefur náð samningum við Gliti um ráðgjöf og segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins að FlyMe hafi einnig átt í viðræðum við bankann um að fjármagna hugsanlegar yfirökur. Talsmaður Glitnis neitaði því að um fjármögnunarsamning sé að ræða.