*

laugardagur, 4. júlí 2020
Innlent 6. maí 2020 16:52

Tap Borgunar tvöfaldaðist

Möguleg endurgreiðsluáhætta félagsins vegna Covid-19 er á bilinu 200 til 1.000 milljónir króna.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Tap Borgunar á fyrsta ársfjórðungi þessa árs er ríflega tvöfalt meira en á sama tímabili í fyrra. Þetta má lesa út úr árshlutauppgjöri Íslandsbanka.

Í febrúar var sagt frá því, í kjölfar ársuppgjörs Íslandsbanka, að Borgun hefði tapað alls 972 milljónum króna á síðasta ári. Þá nam tap af rekstri félagsins á fyrsta ársfjórðungi að teknu tilliti til skatta 170 milljónum króna. Tapið nú á sama tímabili nam aftur á móti 344 milljónum króna. Af uppgjörinu má ráða að tekju hafi dregist saman um 86 milljónir króna á meðan gjöld jukust um 55 milljónir króna.

Í mars var sagt frá því í Viðskiptablaðinu að félagið Salt Pay hefði keypt 96% hlut í Borgun en Íslandsbanki átti rúm 63 prósent í félaginu. Kaupverðið var í kringum fimm milljarða króna en kaupin eru háð samþykki Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Það liggur ekki fyrir.

Í uppgjörinu nú er einnig gerð grein fyrir endurgreiðsluáhættu Borgunar vegna Covid-19 faraldursins. Er þess getið að sú staða geti komið upp að Borgun hafi milligöngu um viðskipti sem síðan gangi ekki snuðrulaust fyrir sig vegna faraldursins. Í einhverjum tilvikum geti Borgun þurft að endurgreiða neytanda sökum þess að fyrirtækið geti ekki greitt til baka. Mögulegt sé að neikvæð áhrif á Borgun vegna þessa séu á bilinu 200 til 1.000 milljónir íslenskra króna.

Stikkorð: Íslandsbanki Borgun