*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 29. apríl 2020 16:57

Tap Eikar nam 235 milljónum

Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu fasteignafélagsins jókst um 1,8%, en tekjurnar jukust um 2,4%, í rúma 2,1 milljarða.

Ritstjórn
Garðar Hannes Friðjónsson er forstjóri Eikar fasteignafélags.
Haraldur Guðjónsson

Fasteignafélagið Eik tapaði 235 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi ársins sem er tæplega 130% viðsnúningur frá sama tíma fyrir ári þegar félagið hagnaðist um 825 milljónir króna.

Vegna óvissunnar sem skapast hefur á fasteignamarkaði eins og öðrum vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins felldi félagið úr gildi afkomuspá sína fyrir árið, en auk þess stöðvaði félagið endurkaupaáætlun upp á 500 milljónir króna þegar þau námu 46,2 milljónum króna.

Félagið hafði boðað 800 milljóna króna arðgreiðslu en vegna samkomubanns hefur aðalfundi félagsins verið frestað. Hefur félagið tryggt sér bankafjármögnun upp á 1,4 milljarða auk óádreginna lánalínu að fjárhæð 800 milljónir króna.

Inn í tapið kemur neikvæð matsbreyting eigna sem nemur 771 milljón króna, en í heildina var tap af matsbreytingum, söluhagnaði og afskriftum 883 milljónir króna, en á sama tíma fyrir ári var sá liður jákvæður um 576 milljónir króna.

Meiri tekjur og minni kostnaður

Rekstrartekjur félagsins jukust hins vegar um 2,4% milli ára, úr 2.084 milljónum króna í 2.135 milljónir, meðan rekstrargjöldin drógust eilítið saman, úr 811 milljónum króna í 809 milljónir.

Hrein fjármagnsgjöld drógust saman um ríflega fimmtung, eða úr 909 milljónum í 714 milljónir, svo Rekstrarhagnaður félagsins fyrir matsbreytingar og afskriftir jókst um 1,8%, úr 1.303 milljónum í 1.326 milljónir króna.

Eiginfjárhlutfall félagsins stóð nálega í stað, fór úr 31,7% í 31,5% milli ára, en heildareignir félagsins námu 102.363 milljónum króna þann 31. mars 2020. Fasteignir innan samstæðunnar eru rúmlega 100 talsins og telja rúmlega 310 þúsund útleigufermetra í 600 leigueiningum. Heildarfjöldi leigutaka er yfir 400. Helstu

Þar af eru fjárfestingareignir að virði 95.619 milljónir króna sem skiptast í fasteignir í útleigu að fjárhæð 92.770 milljónir króna, leigueignir (nýtingarréttur lóða) 2.066 milljónir króna, fasteignir í þróun 321 milljónir króna, byggingarréttir og lóðir 448 milljónir króna og fyrirfram greidd gatnagerðargjöld að fjárhæð 13 milljónir króna.

Eignir til eigin nota námu 4.078 milljónum króna. Eigið fé félagsins nam 32.271 milljónum króna í lok mars 2020 og var eiginfjárhlutfall 31,5%. Heildarskuldir félagsins námu 70.092 milljónum króna þann 31. mars 2020, þar af voru vaxtaberandi skuldir 59.511 milljónir króna og tekjuskattsskuldbinding 7.216 milljónir króna.