Hagnaður Icelandair Group nam 62 milljónum dollara eða því sem nemur um 7,5 milljörðum íslenskra króna á þriðja ársfjórðungi þessa árs en félagið birti uppgjör sitt fyrir tímabilið eftir lokun markaða síðastliðinn þriðjudag. Það þarf ekki að koma mikið á óvart að hagnaður félagsins dróst saman um 36% frá sama tímabili í fyrra enda hefur félagið sent frá sér tvær neikvæðar afkomuviðvaranir á síðustu tveimur ársfjórðungum.

Afkoma fjórðungsins var nokkuð í takt við væntingar greiningaraðila en þó örlítið betri en meðaltal nokkurra afkomuspáa sem Viðskiptablaðið tók saman sem gerði ráð fyrir hagnaði upp á 56,6 milljónir dollara. Í tilkynningu frá Icelandair vegna uppgjörsins kemur fram að skýra megi lakari afkomu milli ára með lækkun farþegatekna á sama tíma og eldsneytisverð er hátt. Fjárfestar tóku hins vegar vel í uppgjör félagsins og hækkaði gengi bréfa um 7,35% í gær og um 2,65% í dag stendur nú í 7,35 krónum á hlut.

Fyrsta tap í átta ár

Tólf mánaða afkoma Icelandair Group hefur lækkað nær stöðugt á hverjum ársfjórðungi síðan hún náði hámarki á þriðja ársfjórðungi árið 2016. Er þetta hins vegar í fyrsta sinn síðan árið 2010 sem félagið skilar tólf mánaða tapi en tap félagsins á síðustu fjórum ársfjórðungum nemur um 38 milljónum dollara.

EBITDA á þriðja ársfjórðungi nam 115 milljónum dollara og dróst saman um 26% frá sama tímabili í fyrra. EBITDA var í takt við meðaltal greiningaraðila sem gerði ráð fyrir 114,7 milljónum dollara. Eins og fjallað hefur verið um eru fjárhagsleg skilyrði til staðar í hluta af skuldabréfum Icelandair Group um að vaxtaberandi skuldir félagsins megi ekki fara yfir sem nemur 3,5 sinnum 12 mánaða EBITDA. Samfara versnandi afkomu er þetta hlutfall nú um 4,3 og skilyrðin því ekki uppfyllt. Samkvæmt tilkynningu frá Icelandair á félagið í viðræðum við skuldabréfaeigendur um langtíma lausn á málinu.

Kostnaður vex áfram hraðar en tekjur

Líkt og áður hefur verið fjallað um hefur kostnaður Icelandair vaxið hraðar en tekjur á síðustu misserum. Heildartekjur félagsins námu 545 milljónum dollara á ársfjórðungnum og hækkuðu um 2% frá sama tímabili í fyrra. Rekstrarkostnaður nam 430 milljónum dollara og jókst um 13 milli ára. Hefur kostnaður félagsins vaxið hraðar en tekjur á níu af síðustu tíu ársfjórðungum þegar fjórðungar eru bornir saman milli ára. Þrátt fyrir erfitt gengi síðustu misseri er fjárhagsstaða Icelandair Group sterk. Heildareignir félagsins námu um 1,6 milljörðum dollara í lok september og þar af nam handbært fé 184 milljónum dollara. Vaxtaberandi skuldir námu 406 milljónum og eiginfjárhlutfall var 36% í lok fjórðungsins.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .