Hagnaður Icelandair Group fyrir skatta og fjármagnsliði nam á öðrum ársfjórðungi þessa árs um 2,1 milljarði króna, samanborið við 1,4% milljarða á sama tíma í fyrra.

Hins vegar nam tap félagsins eftir skatta og fjármagnsliði um 161 milljón króna, samanborið við tap upp á 1,3 milljarða á sama tíma í fyrra.

Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Icelandair Group sem birt var í dag en þá liggur fyrir uppgjör félagsins á fyrri hluta þessa árs.

Hagnaður samstæðunnar á fyrri hluta þessa árs nemur því 2,3 milljörðum króna fyrir skatta og fjármagnsliði, samanborið við tæpan 1,5 milljarð á sama tíma í fyrra.

Tapið eftir skatta og fjármagnsliði nemur þó rúmum 2 milljörðum króna á fyrri hluta þessa árs, samanborið við tæpa 5 milljarða á sama tíma í fyrra.

Heildarvelta samstæðunnar á fyrri hluta ársins var rúmir 38 milljarðar og jókst  um 14% á milli ára.

Mikill fjármagnskostnaður

Mikill fjármagnskostnaður er enn að sliga samstæðuna en á fyrri hluta þessa árs var fjármagnskostnaður Icelandair Group 1,8 milljarðar króna samanborið við 1,7 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Þá nam handbært fé frá rekstri 9,4 milljörðum króna samanborið við 5 milljarða á fyrstu sex mánuðum árið áður.

Þá námu afskriftir félagsins um 2,6 milljörðum króna og hækka um rúm 10% á milli ára.

Heildareignir samstæðunnar námu 97,8 milljörðum í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall var 13,4% í lok tímabilsins, en var 17,8% á sama tíma í fyrra.