Í ársuppgjöri Icelandic Goup kemur fram að tap félagsins á síðasta ári nam 1.176 milljónum króna samanborið við 597 milljóna króna hagnað árið 2004 en starfsemi Icelandic Group á árinu 2005 einkenndist af umbreytingum og endurskipulagningu.

Félagið sameinaðist Sjóvík í maí og einnig sameinuðust Icelandic USA og Samband of Iceland í Bandaríkjunum. Gjaldfærður kostnaður vegna endurskipulagningar var 1.368 milljónir króna á árinu.

Á árinu voru talsverðir erfiðleikar í rekstri Coldwater UK og Icelandic France. Og lækkun varð á markaðsverði hlutabréfa í Fishery Products International sem nam 260 milljónir króna.

Velta félagsins á árinu nam 93,5 milljörðum króna samanborið við 69,7 milljarða króna árið 2004. EBITDA hagnaður nam 1.264 milljónum króna samanborið við 2.515 milljónir króna árið 2004. EBITDA án kostnaðar við umbreytingu og endurskipulagningu nam 2.343 milljónum króna. Eignir í árslok 2005 námu 51,4 milljörðum króna samanborið við 35,2 milljarða króna í árslok 2004.

Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson stjórnarformaður Icelandic Group segir um uppgjörið: Miklar breytingar áttu sér stað hjá Icelandic Group á síðasta ári. Þrátt fyrir óstöðugt rekstrarumhverfi gengu Icelandic félögin á Spáni, Þýskalandi og Asíu vel sem og Icelandic UK og Seachill í Bretlandi Því miður skyggir mjög slakur árangur nokkurra eininga á góðan árangur hinna. Þannig voru miklir erfiðleikar í rekstri Coldwater í Bretlandi og gengu vonir um bættan rekstur á fjórða ársfjórðungi ekki eftir. Þvert á móti var afkoma félagsins mjög slæm í lok ársins og fjarri þeim áætlunum sem stjórnendur félagsins höfðu lagt fram og var tap félagsins um 490 milljónum króna á árinu. Það sama var upp á teningnum í rekstri Icelandic France en tap félagins nam um 430 milljónum króna á árinu. Hluti af tapi félaganna skýrist af kostnaði við endurskipulagningu, en engu að síður er ljóst að félögunum var illa stjórnað og ekki var gripið til róttækra breytinga nægjanlega snemma.

Gunnlaugur segir að þrátt fyrir allt hafi rekstur félagsins víða vel á árinu 2005 og gripið hefur verið til róttækra aðgerða til að bæta afkomu þeirra fyrirtækja sem hafa verið í erfiðleikum. Gunnlaugur telur að með nýju
teymi stjórnenda, bættu skipulagi og hertara eftirliti með starfsemi dótturfélaganna muni félagið ná viðunandi arðsemi af núverandi rekstri félagsins. Stjórnendur félagsins gera ráð fyrir bættriafkomu á árinu 2006 og að félagið verði í stakk búið til að leiða það sameiningarferli sem mun
eiga sér stað á næstu misserum er varðar vinnslu og markaðssetningu sjávarafurða í Evrópu og N ? Ameríku.