Japanska tæknifyrirtækið Sony tapaði 520 milljörðum jena, jafnvirði 820 milljarða íslenskra króna, á síðasta ári. Þetta er rúmlega tvöfalt meira tap en stjórnendur fyrirtækisins höfðu búist við. Samkvæmt umfjöllun bandaríska stórblaðsins The New York Times er meira tap af sjónvarpstækjaframleiðslu Sony en reiknað var með auk þess sem sterkt gengi japanska jensins og framleiðslutafir vegna náttúruhamfara í Taílandi settu stórt strik í reikninginn. Til viðbótar gerði hið opinbera illt verra fyrir afkomu Sony með skattaálagningu.

Fjallað var hagræðingaraðgerðir innan veggja Sony vegna viðvarandi tapreksturs á vef Viðskiptablaðsins í gær og þar sagt að Kazuo Hirai, sem settist í forstjórastól fyrirtækisins um mánaðamótin, væri að brýna niðurskurðarhnífinn til að fylla upp í hítina.

Masaru Kato, fjármálastjóri Sony, tekur undir með forstjóranum nýja í samtali við The New York Times í dag. Gripið verði til ýmissa aðgerða til að snúa rekstrinum við. Þar á meðal verður fækkað um 10 þúsund stöðugildi, flatskjárframleiðsla sett inn í annað fyrirtækið

Blaðið hefur eftir sérfræðingum að stjórnendur Sony verði að breyta fókusi sínum og einbeita sér að ábatasömum þáttum fyrirtækisins, svo sem leikjatölvuframleiðslunni og framleiðslu á tölvuleikjum auk annarrar afþreyingar. Það þýði m.ö.o. að Sony verði að hætta framleiðslu á flatskjársjónvörpum og öðrum tækjum sem hafa gert lítið annað en að auka á tap fyrirtækisins.