Tap af rekstri Tryggingarmiðstöðvarinnar (TM) á fyrstu sex mánuðum ársins 2006 nam 624 milljónum króna, samanborið við tæplega 2,9 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2005, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Óskar Magnússon, forstjóri TM, segir að afkoman enduspegli þá þróun sem orðið hefur á hlutabréfamarkaði síðustu mánuði. Einnig var töluvert tap af vátryggingarstarfseminni, en það nam 291 milljón króna.

Gengistap var af eign TM í Landsbankanum, sem nam 770 milljónum króna. 113 milljón króna tap var á eign félagsins í Bakkavör og 75 milljóna gengistap af hlutabréfaeign í Kaupþingi banka. Hins vegar var hagnaður af erlendum fjárfestingum TM og nam hagnaður af fjárfestingunni í Invik rúmlega 650 milljónum á fyrstu sex mánuðum ársins og 295 milljónir af af fjárfestingunni norska félaginu Nemi.

Tap TM eftir skatta á öðrum ársfjórðungi 2006 nam 1.250 milljónum króna er á öðrum ársfjórðungi á síðasta ári nam hagnaðurinn 1,5 milljörðum. Tap á hlut á fyrri árshelmingi nam 0,69 krónum samanborið við 3,13 krónur á hlut í hagnað á sama tímabili 2005.

Hreinar tekjur félagsins námu rúmlega einum milljarði króna í apríl til júlí samanborið við 2,4 milljarða á sama tímabili í fyrra.

Eigin iðgjöld félagsins hækka um tæp 24% á sama tíma og nema 1,4 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi. Eigin tjónakostnaður félagsins hækkar frá öðrum ársfjórðungi 2005 þegar hann nam 856 milljónum króna en er nú 1,38 milljarðar.

Rekstrarkostnaður TM var 443 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi 2006 og hækkar um tæp 26% frá árinu áður þegar hann nam 352 milljónum.