Alþjóðagreiðslubankinn (e. Bank for International Settlements eða BIS) segir í nýlegri skýrslu að tap banka vegna bandarískra undirmálslána á húsnæðismarkaði (e. subprime mortgages) kunni að vera ofmetið. Kostnaðurinn við að tryggja bandarísk undirmálslán sé mun hærri en skýra megi með auknum líkum á vanskilum, að því er kemur fram í frétt Wall Street Journal.

BIS fylgist náið með svokallaðri ABX-vísitölu sem endurspeglar verðmæti skuldabréfavafninga sem innihalda undirmálslán á fasteignamarkaði. Þar sem mjög lítil viðskipti eru með slíka vafninga mælir vísitalan hve mikið kostar að tryggja slíka vafninga, þ.e. skuldatryggingaálagið (e. CDS). Líkurnar á því að lántakendur lendi í vanskilum hafa aukist töluvert síðastliðið ár en auk þess segir BIS að þverrandi áhættusækni og áhyggjur af lausafjárstöðu hafi jafnframt haft töluverð áhrif til lækkunar á ABX- vísitölunni.

Sérstaklega hafi bréf með háa lánshæfismatseinkunn, vafningar með AAA-matseinkunn, orðið illa úti vegna áhættufælni sem hafi lítið með áhættu á vanskilum að gera. Þetta bendi til þess að fjárfestar noti vísitöluna til þess að verja aðrar stöður eða að hún endurspegli almenna svartsýni fjárfesta á ástand bandaríska húsnæðismarkaðarins.

Rannsóknir BIS gefi til kynna að verðlækkun skuldabréfa með hæstu lánshæfiseinkunnina, AAA, kunni að vera ofmetin um 60% í ABX-vísitölunni.