*

mánudagur, 26. október 2020
Innlent 18. janúar 2020 12:01

Tapað tíu milljörðum á tveimur árum

Íslensku kortafyrirtækin hafa öll þurft að draga í land eftir útrás erlendis sem ekki gekk sem skyldi.

Ingvar Haraldsson
Jakob Már Ásmundsson, forstjóri Kortaþjónustunnar, Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor og Sæmundur Sæmundsson, forstjóri Borgunar.
vb.is

Íslensku kortafyrirtækin þrjú, Valitor, Borgun og Kortaþjónustan, hafa tapað nærri tíu milljörðum króna á ríflega tveimur árum. Fyrirtækin höfðu öll sótt fram á erlendum mörkuðum á síðustu árum en hafa þurft að draga í land þar sem áform hafa ekki gengið eftir í samræmi við væntingar. Kortafyrirtækin fengu óvæntan búhnykk þegar Visa Inc. keypti Visa Europe árið 2015, en íslensku félögin voru hluthafar í Visa Europe.

Valitor bókfærði tekjur upp á ríflega tíu milljarða króna vegna sölunnar en af þeirri fjárhæð átti Landsbankinn rétt á 39% eftir sölu á hlut í Valitor til Arion banka árið 2015.

Þá bókfærði Borgun söluhagnað upp á 6,2 milljarða króna vega viðskipta með Visa Europe og Kortaþjónustan bókfærði ríflega hálfan milljarð króna. Vegna sölunnar var samanlagður hagnaður kortafyrirtækjanna 16 milljarðar króna árið 2016 og tífaldaðist milli ára. Frá árinu 2016 hefur hins vegar tekið að halla undan fæti hjá félögunum.

Hagnaður var hjá Valitor og Borgun árið 2017 en í október 2017 var Kortaþjónustan nærri farin í þrot eftir gjaldþrot breska flugfélagsins Monarch sem var meðal stærstu viðskiptavina félagsins. Tap Valitor hefur numið um sex milljörðum króna frá ársbyrjun 2018 og út september 2019.

Borgun tapaði tæplega tveimur milljörðum á sama tímabili. Bæði Borgun og Vaitor hafa verið til sölu undanfarið ár en lítið hefur verið gefið upp um hvernig miði að koma fyrirtækjunum í verð. Útrás fyrirtækjanna hefur komið til af ólíkum rótum en þau eiga það þó öll sammerkt að hafa aukið umsvif sín til muna erlendis síðustu árum. Sem dæmi um það fjölgaði starfsmönnum félaganna þriggja samanlagt úr 270 árið 2013 í 593 árið 2018.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér