Actavis hefur fengið samþykki bandarísku matvæla- og lyfjastofnunarinnar (FDA) til að markaðssetja taugalyfið Alprazolam ER í Bandaríkjunum. Dreifing lyfsins hefst á næstu vikum segir í frétt félagsins.

Actavis er í hópi nokkurra fyrirtækja sem fengið hafa markaðsleyfi fyrir lyfið á síðustu mánuðum, sem er eitt af þeim fjölmörgu sem félagið mun markaðssetja á árinu. Alprazolam er annað lyfið sem Actavis setur á Bandaríkjamarkað á árinu, á þessum stærsta markaði samstæðunnar. Fyrir árið í heild sinni er búist við að markaðssett verði 18-20 ný samheitalyf og að lagðar verði inn 40-45 lyfjaumsóknir til lyfjayfirvalda.

Alprazolam ER töflur eru samheitalyf Xanax® XR frá lyfjafyrirtækinu Pfizer. Töflurnar frá Actavis verða fáanlegar í 0,5 mg, 1 mg, 2 mg, og 3 mg styrkleika.

Árleg sala á Alprazolam ER töflum í Bandaríkjunum nam um 53,9 milljónum dala (3,8 milljörðum króna) miðað við desember 2006, skv. tölum frá IMS Health data.