Í fréttatilkynningu frá Taxis og Deloitte segir að Taxis lögmenn, sérhæfð og sjálfstæð lögmannsstofa á sviði skattaréttar, félagaréttar, fjármunaréttar og tengdum réttarsviðum viðskiptalífsins, hafi sameinast skatta- og lögfræðisviði Deloitte.

Lögmenn Taxis eru Garðar Valdimarsson, hæstaréttalögmaður og löggiltur endurskoðandi og Vala Valtýsdóttir héraðsdómslögmaður. Garðar er fyrrverandi ríkisskattstjóri og var til langs tíma aðalsérfræðingur Íslands í samningsviðræðum þess við önnur ríki varðandi tvísköttunarmál, m.a. formaður tvísköttunarnefndar fjármálaráðuneytisins til 1997.

Vala var áður yfirmaður virðisaukaskattsdeildar ríkisskattstjóra og hefur einnig starfað sem lögfræðingur hjá Ernst & Young endurskoðun og KPMG Endurskoðun og hefur átt sæti í ýmsum opinberum nefndum og stjórnum fyrirtækja.

Vala Valtýsdóttir verður forstöðumaður skatta- og lögfræðisviðs Deloitte.