Söngkonan Taylor Swift hefur nú útskýrt hvers vegna nýjasta platan hennar, 1989, muni ekki standa aðdáendum hennar til boða á nýju tónlistarveitunni Apple Music.

Swift skrifaði færslu á Tumblr síðu sína þar sem hún mótmælir harðlega áformum Apple um að leyfa fólki að streyma tónlist af veitunni án þess að borga fyrir það í þrjá mánuði. Fyrst og fremst er hún reið vegna þess að þessa þrjá mánuði munu tónlistarmenn ekki fá neina greiðslu fyrir vinnu sína.

Swift sagði að hún hefði ekki tekið ákvörðunina vegna þess að hún hefði áhyggjur af eigin fjárhag, heldur væri hún fyrst og fremst að hugsa um unga og upprennandi listamenn sem væru að stíga sín fyrstu skref í tónlistarbransanum og fengju ekkert borgað fyrir það.

Söngkonan lýsti hugmyndum Apple sem „óskiljanlegum, svekkjandi og algerlega ólíkt því sem þetta örláta fyrirtæki hefði áður gert“.

„Þrír mánuðir án launa eru langur tími og það er ósanngjarnt að biðja manneskju um að vinna frítt,“ skrifaði Swift meðal annars.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Taylor Swift setur sig upp á móti tónlistarveitu, en á síðasta ári fjarlægði hún öll lög sín af hinu vinsæla forriti Spotify.