Liza Tchenguiz hefur gengið frá skilnaði við milljónamæringinn Vivian Imerman eftir fjögurra ára opinberar deilur um fjárhagshlið skilnaðarins. Niðurstaðan varð 15 milljón punda greiðsla til Lizu. Það jafngildir tæpum þremur milljörðum króna. Liza Tchenguiz er systir Íslandsvinanna Roberts og Vincents Tchenguiz.

Liza og Imerman voru gift í sjö ár. Kaupmáli var gerður á milli hjónanna en virði eigna Vivian er metið um 300 milljónir punda. Á meðan á skilnaðinum stóð hlóðu Tcenguiz bræðurnir niður þúsundum skjala úr tölvu Imerman sem sýndu umsvif eigna hans. Dómstóll skipaði þeim síðar að skila gögnunum

Tchenguiz bræðurnir eru vel þekktir á Íslandi er þeir voru umsvifamestu viðskiptavinir Kaupthing Singer & Friedlander, banka Kaupþings í Bretlandi, fyrir hrun. Robert, annar þeirra bræðra, var á meðal helstu lántakenda bankans og sat um tíma í stjórn Existu.