*

föstudagur, 17. september 2021
Innlent 7. september 2020 20:29

„Teflt á tæpasta vað“ hjá Icelandair

Gylfi Magnússon og Yngvi Örn Kristinsson efast um að lífeyrissjóðir geti réttlætt fjárfestingu í Icelandair. Á ríkið að gerast hluthafi?

Ingvar Haraldsson
Haraldur Guðjónsson

Þetta er gríðarleg áhætta og algjör óvissa hvað kemur út úr þessu,“ sagði Gylfi Magnússon, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og formaður bankaráðs Seðlabankans, um mögulega þátttöku íslenskra lífeyrissjóða í hlutafjárútboði Icelandair. Gylfi og Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja eru báðir efins um að þátttaka íslenskra lífeyrissjóða í útboðinu sé réttlætanleg. Þetta kom fram í pallborðsumræðum á málþingi Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðuna á flugmarkaði fyrr í dag.

Stjórnvöld hafa skilyrt ríkisábyrgð á 16,5 milljarða láni frá ríkisbönkunum Íslandsbanka og Landsbankanum við að félaginu takist að ljúka við 20 milljarða króna hlutafjárútboð á næstu vikum. Þá hanga samningar Icelandair við kröfuhafa, þar með talið Íslandsbanka og Landsbankann, á því að útboðið heppnist. Af milljörðunum 20 hafa bankarnir tveir gefið út að þeir muni sölutryggja allt að 6 milljarða króna ef það tekst að safna 14 milljörðum króna. Helst hefur verið horft til lífeyrissjóðanna sem kjölfestufjárfesta í útboðinu.

Ávöxtun ofar björgunarstarfi

„Þetta er ansi djarft skref fyrir lífeyrissjóðina,“ sagði Gylfi enda eigi þeir að fjárfesta með það að markmiði að skila lífeyrissjóðum ávöxtun. „Þeir mega náttúrulega ekki fjárfesta til að bjarga einhverri innlendri atvinnugrein eða krísu. Það eru eiginlega einhverjir aðrir sem verða að gera það,“ sagði Gylfi. 

Heppilegra væri að finna fjárfesti sem hefði meira tapsþol en lífeyrissjóðirnir og væri betur tengdur fluggeiranum. Gylfi sagði þann aðila hins vegar ekki til á Íslandi og var efins um að sá aðili væri til erlendis. 

Eiginfjárhlutfallið lækkað hratt

Yngvi benti á að eiginfjárhlutfall Icelandair væri orðið mjög lágt. Vegna taprekstrar í faraldrinum lækkaði eiginfjárhlutfallið úr 29% um áramótin í 11% um mitt þetta ár. Óvissan væri svo mikil að mjög erfitt væri að meta líkur á að fjárfesting í Icelandair myndi skila fjárfestum ávöxtun í framtíðinni. Því væri vandasamt fyrir lífeyrissjóði að réttlæta fjárfestingu í félaginu. „Það er teflt á tæpasta vað að þetta geti gengið upp,“ sagði Yngvi. 

Yngi veltir einnig upp hvort skilyrðing ríkisstuðnings við að útboðið sé réttlætanleg. „Það er umdeilanleg ákvörðun hvort það sé skynsamlegt eða yfirleitt hægt,“ sagði Yngvi.

Ríkisins að leggja til hlutafé?

Gylfi og Yngvi nefndu báðir að hugsanlega þyrfti ríkið sjálft að koma inn með hlutafé í félagið, fyrst að það hafi á annað borð tekið ákvörðun um að halda lífi í félaginu og ekki væri öðrum til að dreifa. Gylfi benti á að hlutur ríkisins yrði þá seldur síðar meir.

Í ljósi lágs eiginfjárhlutfalls Icelandair spurði Yngvi einnig út í hlut kröfuhafar Icelandair. Hvort ekki væri rétt að þeir myndu breyta lánum í hlutafé eða annað form fjármögnunar sem væri líkara hlutafé til til að hækka eiginfjárhlutfall félagsins. Samkvæmt samkomulagi Icelandair við kröfuhafa var lengt í skuldum og afborgunum lána frestað til að bæta lausafjárstöðu félagsins. Hins vegar var ekki var farið í hreina afskrift skulda eða þeim breytt í hlutafé.