Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, segir samdráttinn sem fylgdi heimsfaraldrinum vera skólabókardæmi um hvað gerist á tekjuhlið ríkisfjármálanna í efnahagslægð.

„Í einkageiranum töpuðust 20 þúsund störf, ríkissjóður fór samstundis í gríðarlega mikinn halla, greiddar voru út háar atvinnuleysisbætur og tryggingagjaldið gaf eftir. Síðan þegar heimsfaraldurinn gekk yfir og hagkerfið tók við sér að nýju þá skila tekjurnar sér til baka og afkoman batnar hratt. Það segir okkur að á endanum skiptir ekkert jafn miklu máli og kraftmikill vinnumarkaður, hagvöxtur og sterk samkeppnisstaða fyrirtækja. Ef við pössum upp á þetta þá er engin ástæða til að hafa áhyggjur af tekjuhlið ríkisfjármálanna, sú hlið verður alltaf ákveðin spegilmynd af kraftinum í atvinnulífinu.“

Hann telur aðstæður í hagkerfinu vera góðar til að farsæl niðurstaða geti náðst á vinnumarkaði í vetur. Aftur á móti þurfi margir að ná saman til að standa megi vörð um þann mikla vöxt kaupmáttar sem orðið hefur á undanförnum árum og leggja grunn að næsta vaxtarskeiði.

„Ég er því bjartsýnn, þó ég sé meðvitaður um þá ólíku sýn sem aðilar vinnumarkaðarins hafa á hvernig eigi að standa að málum. Allt í ytra umhverfinu bendir til þess að skynsamlegast sé að leggja upp með að verja kaupmáttinn og ná nýju jafnvægi. Ná verðbólgunni niður og spyrna okkur síðan þaðan. Við stöndum vel í samanburði við nágrannalöndin þar sem er almennt meiri verðbólga vegna yfirstandandi orkukrísu. Að auki eru hagvaxtarhorfur á Íslandi góðar og margt að spila með okkur.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út 15. september 2022.